text
stringlengths 0
5.29M
|
|---|
Alþýðumaður vikunnar er á toppi leiklistarferils síns um þessar mundir en hann fer með aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttaröðinni Rétti sem hefst á Stöð 2 á sunnudaginn Hversu pólitískur ertu á skalanum 1 til 10? 7. Styðurðu ríkisstjórnina? Nei. Hvar er draumurinn og hvar er lífið sem þú þráir? ( spurning frá síðasta aðalsmanni ) Draumurinn er að geta lifað almennilega á listinni og þá þar sem ég dvel hverju sinni. Helst uppi í sveit. Hver ber ábyrgð á kreppunni? Ef ég vissi það bara þá myndi ég segja það öllum. Hvað uppgötvaðir þú síðast um sjálfan þig? Að ég er bara 184 cm á hæð en ekki 185 cm. Uppáhaldslið í ensku knattspyrnunni? Liverpool, QPR, Manchester City og stundum Bournemouth. Lýstu persónu þinni í Rétti með sex orðum. Töffari, klár, framhleypinn, sleipur, " winner ", hlýr. Hvert er álit þitt á lögfræðingum? Nokkuð mikið. Hefurðu oft þurft að leita til þeirra sjálfur? Nei, en bróðir minn og pabbi hans eru lögmenn og ég hef oft fengið góð ráð hjá þeim. Hver eru þín mestu mistök? Ég er endalaust að gera mistök en er nýfarinn að reyna að læra af þeim. Og þinn stærsti sigur? Hvert verkefni sem ég næ að klára er mikill sigur fyrir mig. Hver yrði titillinn á kvikmynd um ævi þína? Der Mensch. Hver myndi leika aðalhlutverkið? Hrafn bróðir. Hvers viltu spyrja næsta viðmælanda? Hvað tekurðu í bekkpressu?
|
Smekkur og stíll. S-Enginn Norður & spade ; 8 & heart ; 6 & diam ; G 1075432 & klubs ; Á 653 Vestur Austur & spade ; Á 9 & spade ; K532 & heart ; K97432 & heart ; G 1085 & diam ; 8 & diam ; - - & klubs ; KG 94 & klubs ; D 10872 Suður & spade ; DG 10764 & heart ; ÁD & diam ; ÁKD 96 & klubs ; – Suður spilar 6 & diam ;. Tölvur eru góðar að leysa hreinar reikniþrautir eins og að finna bestu spilaleið á opnu borði. En þegar kemur að því að velja sagnir er óhjákvæmilegt að forritin dragi nokkurn dám af skapara sínum. Í þeim efnum kemur margt til greina og ein lausn er ekki endilega stærðfræðilega betri en önnur. Smekkur og stíll koma til sögunnar. Skoðum spil úr viðureign Shark Bridge ( DAN ) og WBridge 5 ( FRA ). Sagnir fóru eins af stað á báðum " borðum " : Suður opnaði á 1 & spade ;, vestur kom inn á 2 & heart ; og norður passaði. Þótt allar sagnirnar þrjár séu álitamál er forritunarstíllinn sá sami og vel í takt við mannlegan tíðaranda. En það breyttist þegar kom að austri. Hákarlinn stökk í 4 & heart ;, en Fimman sagði 2G í rannsóknarskyni. Við 2G gat suður sagt 3 & diam ; og þá lá leiðin upp í tígulslemmu ( + 920 ). Hindrunin í 4 & heart ; svæfði hins vegar tígullitinn. Suður sagði 4 & spade ; og doblaði svo 5 & heart ; austurs í framhaldinu ( - 650 ).
|
Þingmaður á ríkisþingi Maryland í Bandaríkjunum hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að breyta nöfnum á tveimur fjöllum í ríkinu. Fjöllin nefnast nú Negro Mountain, sem mætti þýða Negrafjall og Polish Mountain, sem má þýða sem Pólski tindur. Þingmaðurinn Lisa Gladden segir, að tillagan geri ráð fyrir að skipuð verði nefnd til að finna ný nöfn á fjöllin fyrir lok ársins. Gladden sagði við AP fréttastofuna, að nafnið Negrafjall sé ekki lengur viðeigandi í ljósi þess. Orðið negri, sem var áður notað um blökkumenn, er nú talið niðurlægjandi. Gagnrýnendur segja, að með tillögunni gangi pólitísk rétthugsun út í hreinar öfgar en hefur verið á, að fjallið var nefnt til heiðurs blökkumanni sem var uppi á 18. öld. Sérstök nafnanefnd í Maryland fjallaði um nafnið Negro Mountain fyrir 15 árum og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að breyta nafninu þar sem það fæli ekki í sér vanvirðingu.
|
FARC skæruliðasamtökin í Kólumbíu hafa rænt sex ferðamönnum í bænum Choco við Kyrrahafsströnd landsins.
|
Fjórir bandarískir hermenn féllu í austur - og suðurhluta Afganistan í gær, að sögn NATO. Þrír þeirra létust í átökum við uppreisnar-menn en einn lést þegar hann varð fyrir heimagerðri sprengju. Þá varð fyrrum skæruliðaleiðtoginn Slaam Pahlawan fyrir bílsprengju í Faryab-héraði í norðurhluta landsins. Pahlawan var í bíl ásamt sonum sínum, fimm og tíu ára, og tveimur lífvörðum þegar uppreinsnarmenn sprengdu bíl þeirra í loft upp með fjarstýrðri sprengju. Hann barðist við sovéskan innrásarher á níunda áratugnum en margir eftirlifandi hermenn frá þeim tíma hafa verið skotmörk talibana vegna samvinnu þeirra og ríkistjórnarinnar í Kabul. Það sem af er þessum mánuði hafa 42 hermenn verið drepnir í Afganistan, en þar af eru 28 bandarískir hermenn. Sextíu og sex bandarískir hermenn létu lífið í júlí en þeir hafa ekki verið fleiri frá því ráðist var inn í landið árið 2001. Nákvæm staðsetning átakanna í gær er ekki ljós en þó hafa borist fréttir af hörðum átökum í Jaji-umdæmi í austurhluta Paktiya-héraðs, um 12 kílómetra frá landamærum Pakistan. Afganski herinn og landamæralögreglan komu bandarískum hermönnum til aðstoðar á jörðu niðri og þyrlur gerðu árás úr lofti, að sögn afganska hersins. Ekki er vitað hve margir vígamenn féllu. -ve
|
Hörður Guðmundsson, flugstjóri og framkvæmdastjóri flugfélagsins Ernis segir að stöðvun ISAVIA á nýrri flugvél félagsins í janúar hafi verið ofbeldi. Vissulega hafi verið skuld til staðar hjá flugfélaginu við ISAVIA en fyrir lá að Ernir hafði byggt húsnæði á eigin kostnað sem svo ætlunin var að ISAVIA yfirtæki og þannig hafi alltaf verið til fyrir skuldinni. Þegar vélin var kyrrsett hafði hún ekki farið neitt áætlunarflug og verið var að þjálfa áhöfnina. Hörður sem það merkilegt að í 100 ára sögu flugsins á Íslandi, en fyrsta flugvélin tók sig á loft í Vatnsmýrinni árið 1919, hafi aldrei fyrr verið kyrrsett flugvél. Málið var strax leyst, segir Hörður eins og fyrir lá að yrði gert og flugvélin er í rekstri og reynist vel. Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair hefur einmitt vakið athygli á því að WOW air hafi óhindrað getað flogið þrátt fyrir hafa safnað miklu skuldum í formi ógreiddra gjalda til ISAVIA en Flugfélagið Ernir hafi verið stöðvað. Hörður Guðmundsson bar sig vel þegar Bæjarins besta hringdi í hann í dag og sagði fyrirtækið ganga vel. Deila : Facebook Twitter
|
Eftir Guðmund Sverri Þór sverrirth@mbl.is ICELANDAIR hefur skipt um þjónustuaðila á flugvöllunum í Osló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn, eftir að hafa sagt upp samningum sínum við SAS. Þjónustan sem um ræðir er afgreiðsla farþega og farangurs fyrir flug félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair. Þar segir að í Kaupmannahöfn og í Osló verði afgreiðsla farþega og farangurs hjá Servisair. Við þessa breytingu flyst innritun í afgreiðslubyggingu 2 á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn en í dag er hún í byggingu 3. Innritun í Osló verður á sama stað. Í Stokkhólmi verður afgreiðsla farþega og farangurs hjá Nordic Aero. Innritun verður í sömu byggingu og hingað til hefur verið. Á undanförnum árum hefur Icelandair keypt þessa þjónustu af flugvallarþjónustu SAS-flugfélagsins en að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa FL Group, hafa þessar breytingar ekkert með vangaveltur um framtíð samstarfs dótturfélaga FL Group við SAS. Hann segir að þetta hafi verið í farvatninu í einhverjar vikur en eins og greint var frá í Morgunblaðinu 29. september síðastliðinn ætlar SAS að segja upp 300 starfsmönnum, meðal annars vegna þess að félagið missti samning við Icelandair. Í tilkynningu Icelandair kemur fram að farþegar á viðskiptafarrými fái áfram aðgang að betri stofum SAS á flugvöllunum.
|
Fjármálaráðherra segist bjartsýnni en áður á framhaldið í Icesave-deilunni eftir fund með ráðuneytisstjóra hollenska fjármálaráðuneytisins. Steingrímur er staddur ásamt Árna Páli Árnasyni, efnahags - og viðskiptaráðherra í Washington en ráðherrarnir hafa fundað með starfsmönnum og stjórnarmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, forsvarsmönnum matsfyrirtækja og fjármálaráðherra Breta þar ytra. Í dag hafa þeir fundað með ráðuneytisstjóra hollenska fjármálaráðuneytisins og er þeim fundi nýlokið. Steingrímur segir að á fundinum hafi verið rætt um framgang efnahagsáætlunar Íslands hjá AGS og stöðuna í Icesave-málinu. Hann segir að fundurinn hafi verið gagnlegur og að hann sé bjartsýnni en áður á framhaldið. Ráðherrarnir eru nú á leið á fund með forsvarsmönnum Moody's og sagði Árni Páll Árnason, efnahags - og viðskiptaráðherra að á honum verði lögð áhersla á að hollenskir innstæðueigendur fái sitt til baka úr þrotabúi Landsbankans. Þeim fundi lýkur fyrir kvöld. Rætt verður við Steingrím J. Sigfússon í kvöldfréttum RÚV.
|
Einar Jörundsson, dýralæknir og meinafræðingur á Keldum, krufði i gær ær sem veiktist af þeim óútskýrðu veikindum sem hafa herjað á ær víðs vegar á landinu á undanförnum vikum. Hann sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að ekki sé hægt að útiloka að um smitsjúkdóm sé að ræða. Einar sagði að krufningin bendi til þess að meltingatruflun hafi hrjáð kindina, en sýni sem tekin voru til rannsóknar ættu að skýra hvað var að. Niðurstöðurnar verði ljósar á næstu dögum, en verið sé að safna blóð -, gróður -, og jarðvegssýnum um allt land. Dýralæknar telja þó að ekki sé um bráðsmitandi sjúkdóm sé að ræða þar sem það sé allt í lagi með fjölda fjár sem hafi verið innan um kindur sem hafa drepist. Þó hey séu léleg dugi sú skýring ekki til.
|
Tveir Íslendingar eru á meðal keppenda á Evrópumeistaramótinu í júdó sem fram fer í Kazan í Rússlandi. Sveinbjörn Iura hóf keppni í morgun þar sem hann varð að játa sig sigraðan gegn Pólverjanum Jakub Kubienec í -81 kg. flokki. Þormóður Jónsson verður svo í eldlínunni á morgun en andstæðingurinn er hans fyrrum æfingafélagi. Michal Horák frá Tékklandi sem er í 45. sæti á heimslistanum í þungavigt gen Þormóður er í 69. sæti. Michal hefur verið að standa sig mjög vel undanfarið og er hann og Þormóður ásamt fleirum að berjast um laust Evrópusæti á Ólympíuleikunum í Ríó í þungavigtinni og eins og staðan er í dag þá er Þormóður inni á leikunum.
|
Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, ESB, sagðist í dag fagna fundi Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels og Mahmud Abbas, forsætisráðherra Palestínu í Egyptalandi í dag. Hvatti Solana þá til þess að halda áfram að vinna að " draumnum " um frið. " Við viljum óska bæði Abbas og Sharon til hamingju fyrir að sýna það hugrekki að halda þennan fund, " sagði hann eftir að fundi tvímenninganna lauk í Sharm el-Sheikh. Solana bætti því við að ESB vildi hvetja þá til þess að halda áfram að eiga viðræður sem gætu stuðlað að því að draumur margra um frið milli Ísraela og Palestínumanna rættist.
|
BBC hefur sett saman lista sinn yfir helstu vonarstjörnur ársins, lista sem kallast The Sound of 2010. Viðlíka listar hafa verið samdir undanfarin ár og eru afar áhrifaríkir og skjóta iðulega megninu af þeim listamönnum sem hann prýða ofarlega á stjörnuhimininn. Sú sem toppar listann er Ellie Goulding ; söngvaskáld sem sameinar þá hefð við dansvæna strauma. Í öðru sæti er Marina and the Diamonds, en Marina beitir fyrir sig leikrænum og dramatískum söngstíl. Í þriðja sæti er indíbandið Delphic, í því fjórða rafdúettinn Hurts og í fimmta sæti er New York-bandið The Drums, sem heimsótti síðastliðna Airwaves hátíð. Lista yfir þá fimmtán aðila sem nefndir voru upphaflega má nálgast á vefsíðu BBC.
|
Gengi krónunnar var nánast óbreytt í viðskiptum á millibankamarkaði með gjaldeyri í dag. Gengivísitalan var 142,95 stig í upphafi viðskipta en var 142,78 þegar markaði var lokað sem þýðir að gengið hefur hækkað um 0,12%.
|
Það er lengra frá sjó en nokkurt annað land og öll vatnsföll í landinu renna í lokuð vatnasvið sem ekki tengjast neinum úthöfum.
|
Bílaleiga Flugleiða ehf., Glitnir og Toyota - P. Samúelsson ehf. skrifuðu nýverið undir tímamótasamning á íslenskum bílamarkaði. Hljóðar hann upp á kaup á 220 Toyota-bifreiðum fyrir Bílaleigu Flugleiða ehf. og er heildarverðmæti samningsins tæplega 270 milljónir króna. " Þetta er ekki eingöngu stærsti bílakaupasamningur sem gerður hefur verið á Íslandi heldur einnig sá stærsti um rekstrarleigu bíla, " segir í frétt frá Toyota-umboðinu. Þar segir einnig : " Frá árinu 1996 hefur Glitnir boðið upp á rekstrarleigu bíla og hafa vinsældir þessarar þjónustu vaxið mjög hratt. Bílaleiga Flugleiða, sem er einn stærsti bílakaupandi á Íslandi á ári hverju, hefur nú ákveðið að endurnýja bíla sína þetta árið með rekstrarleigu hjá Glitni. Fyrirtæki hafa í auknum mæli verið að nýta sér rekstrarleigu vegna fyrirtækjabifreiða. Ástæðan er annars vegar sú að beinn fjárhagslegur ávinningur er af þessu fyrirkomulagi fyrir fyrirtækin og hins vegar losna þau undan óþægindum sem slík eignaumsýsla hefur í för með sér eins og áhættu vegna endursölu bifreiðanna. " Bílaleiga Flugleiða ehf. er stærsta bílaleiga landsins með yfir 500 bíla í útleigu á sumrin og yfir 200 bíla á veturna. Að sögn Hjálmars Péturssonar, framkvæmdastjóra Bílaleigu Flugleiða, hefur fyrirtækið mjög góða reynslu af notkun Toyota-bifreiða, en það hefur keypt rúmlega 1.200 slíkar á undanförnum árum. Keyptir verða 98 bílar af gerðinni Yaris, 115 Corolla-bifreiðir og 7 Hilux. Afhending fer fram 5. maí til 30. júní.
|
Kæra Meyja Seinasti mánuður var uppfullur af breytingum í vinnunni. Þennan mánuðinn færðu meiri tíma fyrir félagslífið. Pláneturnar eru þannig staðsettar að fjör er að færast í leikinn. Vinirnir munu eiga hug þinn allan í júlí og stemningin verður allsráðandi. Það verður svo mikið að gerast að þú þarft að velja og hafna. Í upphafi mánaðar mun rómantíkin svo ráða ríkjum, sönn ást mun jafnvel gera vart við sig. Ef þú getur mögulega skellt þér í smá frí í fyrstu vikunni í júlí þá skaltu gera það. Taktu svo til hendinni og ljúktu við ókláruð verkefni í upphafi mánaðar. Í seinni hluta júlí átt þú nefnilega að slaka á og einbeita þér að heilsunni og útlitinu. Þá er góður tími til að breyta til. Tímabilið frá 18. júlí til 8. ágúst ættir þú að nýta til að fara yfir ástarlífið. Þú ættir kannski að kynda undir gömlu báli eða, ef þú ert í sambandi, að skoða sambandið undir smásjá. Eins og áður sagði verður brjálað að gera í félagslífinu sem er bara jákvætt, en þetta mun þó mögulega valda þér smá áhyggjum því þetta verður kostnaðarsamt. Ef þú ert í sambandi þá mun maki þinn mögulega ekki vera í eins miklu stuði til að skemmta sér og þú, það gæti líka valdið smá spennu. En þú munt finna lausnir á þessum vandamálum, ef vandamál skildi kalla. Í blálok mánaðar ættir þú svo að einbeita þér aðeins að vinnunni. Farðu yfir stöðuna og kafaðu dýpra í þau verkefni sem þú tekur þér fyrir hendur. Einhver minniháttar veikindi gætu gert vart við sig en þú munt að öllum líkindum ná að jafna þig fyrir mánaðarmótin. Spá Susan Miller má lesa í heild sinni á Astrology Zone.
|
Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Fjölmenni var í sal 1 í Hæstarétti í gær þar sem tekið var fyrir mál nýja Landsbankans gegn þrotabúi Motormax ehf. Tekist er á um hvort 150 milljóna króna lán Landsbankans til Motormax hafi verið löglegt erlent lán eða ólöglegt gengistryggt lán. Hæstiréttur var fullskipaður í fyrsta sinn í sjö ár, en það þýðir að dómarar eru sjö talsins en ekki þrír eða fimm eins og venjulegt er. Málflutningur hafði áður farið fram, en hann verður endurfluttur fyrir fullskipuðum rétti. Það að rétturinn er fullskipaður er merki um alvarleika málsins, en dómurinn mun hafa fordæmisgildi fyrir fjölda sambærilegra lánasamninga og eru gríðarlegar fjárhæðir í húfi. Lögmenn beggja aðila vísuðu ítrekað til lánasamningsins, afhendingar lánsins og afborgana Motormax til bankans og komust að þveröfugum niðurstöðum af þessum sönnunargögnum. Deilt um erlendar myntir Lögmaður bankans segir að þrátt fyrir að lánasamningurinn sé tilgreindur í íslenskum krónum, sé það einungis vegna þess að áður en Landsbankinn gat farið í að kaupa gjaldeyrinn þurfti Motormax að skuldbinda sig með undirritun lánasamningsins. Þegar það hafi verið gert hafi hinn erlendi gjaldeyrir verið keyptur, honum skipt í íslenskar krónur og þær krónur lagðar inn á reikning Motormax. Lögmaður þrotabúsins segir að færslur innan bankans skipti ekki máli í þessu sambandi. Lánið sé tilgreint í krónum í samningnum og Motormax hafi fengið íslenskar krónur afhendar. Þá sé greinilegt af lestri samningsins að miðað sé við gengi gjaldmiðlakörfu, en Motormax hafi aldrei fengið erlenda gjaldeyrinn afhentan. Lögmaður bankans segir varðandi afborganir á láninu að í nokkrum tilfellum hafi Motormax greitt af því með erlendum gjaldeyri beint og í önnur skipti keypt gjaldeyri af bankanum og notað hann svo til að greiða af láninu. Lögmaður þrotabúsins segir hins vegar að í þeim tilvikum sem erlendur gjaldeyrir var notaður til að greiða af láninu hafi það ekki verið í þeim hlutföllum eða þeim gjaldmiðlum sem tilgreindir voru í samningnum. Þá skipti ekki máli hvort bankinn hafi litið svo á að hann væri að skipta krónum Motormax fyrir erlendan gjaldeyri sem svo hafi verið notaður til að greiða niður lánið. Frá bæjardyrum Motormax hafi fyrirtækið einfaldlega notað íslenskar krónur í langflestum tilfellum til þess að greiða niður lánið.
|
Svartsýni hefur náð tökum á hugum þjóða um alla Vestur-Evrópu, þar á meðal Íslendinga. Hún mælist meðal annars í skoðanakönnunum, sem sýna, að fólk er ekki sátt við foringja sína, býst ekki við neinu góðu af þeirra hálfu og gerir sér litlar framtíðarvonir. Átakavilji fólks er lamaður. Ráðamenn fyrirtækja draga saman seglin og leggja ekki í ný verkefni. Þess vegna eykst atvinnuleysi á Íslandi og festist í sessi um alla Vestur-Evrópu. Ráðamenn þjóða sjá vandamál hrannast upp án þess að þeir hafi mátt til gagnsóknar. Bretar eru dæmigerðir. Í skoðanakönnunum segist nærri helmingur þjóðarinnar mundu flytjast úr landi, ef hann ætti þess kost. Krúna og kirkja hafa glatað virðingu. Og undirmálsmaðurinn John Major hefur leyst járnfrúna Margaret Thatcher af hólmi í pólitíkinni. Fríverzlunarmálin í tollaklúbbnum GATT eru líka dæmigerð. Allur þorri hagfróðra manna veit, að lækkun tolla og annarra múra í alþjóðaviðskiptum bætir hag allra og mest þeirrar þjóðar, sem tollana lækkar. Samt er viðskiptastríð í uppsiglingu milli Vesturlanda. Undirmálsmenn stjórnmálanna eyða tíma sínum í að fylgjast með gengi sínu í skoðanakönnunum og í að mæla hávaða í þrýstihópum, sem ráðast að almannahagsmunum og koma í veg fyrir, að lífskjör innlendra neytenda séu bætt með því að rjúfa tollmúrana. Við stýri þjóðarskútanna sofa undirmálsmenn á borð við bandarísku forsetana George Bush og Bill Clinton og evrópsku forsætisráðherrana John Major og Helmut Kohl, svo og franska forsetann Francois Mitterrand. Veður og vindar líðandi stundar ráða ferð þeirra allra. Þeir svara með sjónhverfingum, er heil Evrópuþjóð tryllist svo af sagnarugli sínu, að hún fremur langverstu stríðsglæpi álfunnar á síðustu hálfri öld. Þeir láta Serba að mestu óáreitta, gráa fyrir járnum, en neita fórnardýrum þeirra um vopn og hernaðarstuðning. Svokallaðir sáttasemjarar, Cyrus Vance og David Owen, flytja tillögur, sem margfalda vegalengd landamæra Serba og verðlauna stríðsglæpi þeirra. Og Atlantshafsbandalagið hefur greinilega fengið hægt andlát í djúpum svefni, þótt eldar brenni við mæri þess. Íslendingum er líka stjórnað af undirmálsmönnum, en munurinn er sá, að þeir fara með óhófsvöld. Við búum við ráðherralýðræði í þéttu kófi reglugerða. Valdamiklir ráðamenn okkar hafa reynzt ófærir um að stjórna sjálfum sér og hvað þá að leiða heila þjóð. Ef stöðvað væri peningabrennslukerfið, sem ráðherrar starfrækja í félagi við banka - og sjóðastjóra, væru meira en nógir peningar til í þessu landi. Ef stöðvað væri styrkjakerfið og innflutningsbannið í landbúnaði, mundu lífskjör almennings snögglega stórbatna. Misheppnaðir ráðamenn sjá þá leið eina að láta almenning og fyrirtæki herða sultaról í sífellu, en hafa ekki áræði til að skera brott meinsemdir kerfisins til að losa þjóðina úr viðjum og færa henni fé og kjark til að takast á við óþrjótandi framtíðarverkefni. Vestrænir undirmálsleiðtogar horfa stjarfir á sókn Serba gegn vestrænni siðmenningu og sókn sérhagsmuna gegn vestrænni fríverzlun. Íslenzkir undirmálsleiðtogar horfa stjarfir á verðmætabrennslu í sukki peningastofnana og í verndun gæludýra atvinnulífsins. Kreppan okkar stafar ekki af fiskileysi, heldur af hugmyndagjaldþroti hinnar úr sér gengnu pólitísku yfirstéttar, bæði hér heima og í nágrannalöndunum. Jónas Kristjánsson DV
|
Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson dæmdu í gær sinn fimmta leik á heimsmeistaramóti karla í handknattleik. Þeir fengu í sinn hlut viðureign Brasilíu og Rússlands í Zaragoza og stóðu sig vel en það var hörkuleikur þar sem Rússarnir innbyrtu sigurinn á síðustu sekúndunum. Það skýrist væntanlega í dag hvaða verkefni þeir fá í framhaldinu. Anton og Hlynur dæmdu þrjá leiki á fyrstu þremur dögunum, Slóvenía – Sádi-Arabía, Túnis – Þýskaland og Serbía – Hvíta-Rússland, og síðan dæmdu þeir leik Slóvena og Serba í lokaumferð riðlakeppninnar á laugardaginn. vs@mbl.is
|
Furious 7 verður frumsýnd um allan heim á föstudaginn. Útgáfa myndarinnar var í uppnámi í kjölfar fráfalls Pauls Walker, en hann lést í bílslysi 30. nóvember 2013. Þá var um helmingi tökudaga lokið. Eftir umhugsun ákváðu aðstandendur myndarinnar að ljúka við myndina, ekki síst sem virðingarvott við Walker. Handritinu var breytt og voru bræður hans, Caleb og Cody Walker, fengnir til þess að hlaupa í skarðið í nokkrum atriðum. Eins og nafnið gefur til kynna er þessi mynd sú sjöunda í röðinni um kappaksturskappana í Fast and the Furious. Vill Óskarsverðlaunin Einn af aðalleikurum myndarinnar, Vin Diesel, telur að Furious 7 eigi skilið Óskarsverðlaun á næsta ári sem besta myndin. Þetta segir hann þrátt fyrir að vita ekkert um samkeppnina, svo mikla trú hefur hann á þessari mynd. Vin Diesel segir hasarmyndir ekki njóta sannmælis hjá Óskarsakademíunni. Hann sagði að ýmsir framleiðendur hefðu kvartað yfir því, en nú væri komin mynd sem ætti verðlaunin skilið. Þessi ummæli hafa vakið athygli vestanhafs og gerði Conan O'Brien spjallþáttastjórnandi grín að Vin Diesel og sagði að leikarinn hafi verið lagður inn á spítala fyrir að halda að myndin ætti skilið Óskarsverðlaunin. Erfitt fráfall Mikið var fjallað um fráfall Pauls Walker og mátti sjá á viðbrögðum annarra leikara myndarinnar að teymið á bak við myndina var náið. Vin Diesel og Walker voru miklir mátar og tók sá fyrrnefndi fráfall þess síðarnefnda mjög nærri sér. Vin Diesel skírði nýfædda dóttur sína Paulina, í höfuðið á vini sínum sem hann kallaði bróður. Leikkonan Michelle Rodriguez hefur einnig tjáð sig um fráfall Walkers. „ Þetta var hræðilegt. Þetta var eins og köld vatnsgusa fram í okkur. Að missa einhvern sem maður elskar svona mikið. Ef einhver var heill og flottur persónuleiki, þá var það Paul, “ útskýrir hún í samtali við bandaríska fjölmiðla. Fínir dómar Gagnrýnendur hafa lofað myndina og sagt hana bera vott um að hægt sé að taka myndir eins og Fast and the Furious í nýjar áttir. Hún er sögð vera spennandi, með mögnuðum áhættuatriðum, en á sama tíma hafi hún tilfinningalega dýpt, meiri en fyrri myndirnar í seríunni. Á vefsíðunni Rotten Tomatoes eru dómar mikils fjölda gagnrýnenda teknir saman og búin til meðaleinkunn úr þeim. Á síðunni er Furious 7 með 6,9 af 10 mögulegum og er sú einkunn fengin úr 25 kvikmyndadómum. Á SXSW hátíðinni fyrr í mánuðinum var myndin forsýnd og myndaðist löng röð fyrir framan kvikmyndahúsið því margir vildu sjá hana. Haldin var minningarhátíð til heiðurs Paul Walker og í umfjöllun tímaritsins Variety kemur fram að tár hafi fallið á þessari tilfinningaþrungnu stund. Búist við miklum tekjum Vestanhafs er talið að myndin getið halað inn dágóðan skilding fyrir framleiðendur. Talið er að myndin gæti slegið aðsóknarmet fyrir mynd frumsýnda í apríl. Myndin Captain America á metið, en hún þénaði 95 milljónir dala frumsýningarhelgina, en talið er að Furious 7 gæti þénað á bilinu 110 til 115 milljónir dala ef spár ganga eftir. Það myndi verða besta frumsýningarhelgi allra mynda í Fast and the Furious-seríunni. Síðasta myndin sem kom út í seríunni, sú sjötta í röðinni, aflaði 97,4 milljóna dala fyrstu sýningarhelgina.
|
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is " Þetta er fyrst og fremst af okkar hálfu ábending og fyrirbyggjandi aðgerð, mér vitanlega hefur ekki reynt á þessi nýju lög. Okkur finnst mjög óeðlilegt að setja svona ströng skilyrði á hendur starfsfólki og því viljum við breyta, " segir Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa. Samskip og Jónar transport hafa óskað eftir því að fá að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við efnahags - og viðskiptanefnd Alþingis. Tilefnið er breytingar sem gerðar voru á tollalögum nýverið. Breytingarnar snúa að saknæmisskilyrðum 172. gr. tollalaga nr. 88 / 2005 með 13. gr. laga nr. 59 / 2017 en breytingin tók gildi 1. júní síðastliðinn. Með lagabreytingunni voru saknæmisskilyrði ákvæðisins, sem fjallar um refsiábyrgð við tollmiðlun, rýmkuð. Nú nægir einfalt gáleysi við brot á 172. gr. tollalaga þar sem áður var krafist stórfellds gáleysis. " Umbjóðendur mínir telja að framangreind lagabreyting hafi ekki fengið þá ítarlegu umfjöllun sem nauðsynleg var við afgreiðslu laganna, " segir í bréfi Lex lögmannsstofu til nefndarinnar. " Vísast til þess að lög nr. 59 / 2017 fólu í sér margar breytingar á fjölda lagabálka án þess að sérstök áhersla hafi verið á tollalöggjöf. Auk þess telja umbjóðendur mínir að hin rýmkuðu saknæmisskilyrði muni hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir starfsumhverfi tollmiðlara. Með bréfi þessu vilja umbjóðendur mínir koma á samráði milli hagsmunaaðila og yfirvalda með það að markmiði að saknæmisskilyrðum þessum verði komið aftur í fyrra horf, " segir þar ennfremur. " Áður var hægt að sækja einstaklinga til ábyrgðar vegna stórkostlegs gáleysis en núna dugar einfalt gáleysi. Þannig að ef menn gera mistök við útfyllingu tollskýrsla þá er hægt að fara á eftir einstaklingnum, " segir Pálmar Óli. Hann segir að mistök við tollmiðlun geti til dæmis verið fólgin í því að slá inn rangan tollflokk. " Þetta geta einfaldlega verið mannleg mistök, viðkomandi getur hafa fengið óskýr fyrirmæli eða gögn hafi verið ófullnægjandi, eða þess vegna innsláttarvilla. Við viljum breyta þessu þannig að þessi grein verði ekki svona íþyngjandi gagnvart starfsfólki okkar. " Hefur starfsfólkið rætt þetta? " Þetta hefur alveg verið til umræðu. Fólk hefur auðvitað áhyggjur. " Samskip og Jónar gera athugasemdir við að ekki var óskað eftir umsögnum um nýja lagafrumvarpið frá hagsmunaaðilum, öfugt við það sem gert var með fyrri lög. Því sé ekki að undra að engin umræða hafi átt sér stað um málið innan þingsins þrátt fyrir að um algera stefnubreytingu sé að ræða. Breytt lagaumhverfi » Í athugasemdum með lögum nr. 59 / 2017 segir að markmið með rýmri saknæmisskilyrðum sé að stuðla að auknum varnaðaráhrifum. » Í nýju lagaumhverfi mega tollmiðlarar sem gera mistök búast við að fá refsingu sína á sakaskrá. » Félag atvinnurekenda hvetur til þess að tollayfirvöld vandi upplýsingagjöf fremur en að refsingar séu hertar.
|
Um fimm þúsund ferskjum, svo kölluðum " hanayome " eða brúðar ferskjum hefur verið stolið úr aldingarði í nágrenni Tókýó. Ferskjurnar eru vinsæl gjöf til brúðarhjóna og kosta skildinginn eða 7.300 jen stykkið, eða 5.700 krónur. Er talið að hópur þjófa hafi verið að verki en þeim var stolið síðastliðna nótt að sögn lögreglu sem rannsakar dularfulla ferskjuhvarfið. Í Japan eru ferskjur, kirsuber og melónur munaðarvara og algengt að slíkir ávextir séu gefnir við sérstök tilefni.
|
Langþráð vegarlagning á sunnanverðum Vestfjörðum hófst í gær þegar Suðurverk mætti með fyrstu vinnuvélarnar í Kjálkafjörð. Þegar verkinu lýkur eftir þrjú ár styttast holóttir malarvegir milli Patreksfjarðar og Reykjavíkur úr 53 kílómetrum niður í 29 kílómetra. Þetta er langstærsta verk í vegagerð sem ráðist hefur verið í á Íslandi eftir hrun og mun kosta um þrjá milljarða króna. Vestfjarðavegur, milli Eiðis við Vattarfjörð og Þverár í Kjálkafirði, verður endurbyggður á 24 kílómetra kafla og styttur um 8 kílómetra með brúm og vegfyllingum yfir tvo firði, Kjálkafjörð og Mjóafjörð. Dofri Eysteinsson, framkvæmdastjóri Suðurverks, segir að þessi fyrsta vika fari í að koma upp vinnubúðum en jarðvinna hefjist svo upp úr næstu helgi. Byrjað verði á að koma upp hafnaraðstöðu fyrir pramma sem flytja mun efni í vegfyllingar. Dofri býst við að 15 - 20 manns vinni á svæðinu í sumar en þeim fjölgi svo í 30 í haust og enn meira þegar brúarsmíði hefst á næsta ári. Verktakinn var viðbúinn því að þurfa að gera hlé á verkinu vegna hafarnavarps. Til þess kemur ekki í ár, að sögn Magnúsar V. Jóhannssonar, svæðisstjóra Vegagerðarinnar, þar sem engir hafernir hafa orpið í vor nálægt vinnusvæðinu en tilskilin lágmarksfjarlægð frá hreiðri er 500 metrar. " Við erum heppnir með þetta, áttum þó síður von á því í Kjálkafirði en frekar í Kerlingarfirði, en þar er heldur ekkert varp innan markanna, " segir Magnús. Vegagerðin hafnaði tilboði læstbjóðanda, Ingileifs Jónssonar, upp á 2.154 milljónir króna, þar sem hann var ekki talinn uppfylla kröfur útboðsins, en samdi í staðinn við Suðurverk, sem átti næstlægsta boð, upp á 2.487 milljónir króna.
|
Myndlistarmaðurinn Elín Hansdóttir heldur fyrirlestur í dag kl. 12.30 um vinnuaðferðir sínar og verk, í fyrirlestrasal myndlistardeildar Listaháskóla Íslands að Laugarnesvegi 91. Verk Elínar hafa vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi og hefur hún skapað innsetningar fyrir nokkur alþjóðleg sýningarrými, m.a. Frieze Projects, ZKM í Karlsruhe og Listasafn Íslands.
|
Forsætisráðherra Sómalíu sneri aftur til höfuðborgarinnar Mogadishu í dag við mikinn fögnuð borgarbúa. Hersveitir nágrannaríkisins Eþíópíu hlutu hins vegar ekki jafnblíðar móttökur og voru grýttar þar sem hermennirnir tóku stjórnina við höfnina og flugvöllinn í Mogadishu.
|
Í Konsert kvöldins rifjum við upp 30 ára afmælistónleika Síðan Skein Sól sem fóru fram í Háskólabíó 25. mars 2017 Tilefnið er 60 ára afmæli Helga Björns sem var á þriðjudaginn. Helgi ætlar að halda upp á þessi tímamót með stórtónleikum í Laugardalshöll laugardagskvöldið 8. September og þar verður öllu tjaldað til. Helgi verður með stóra frábæra hljómsveit með sér og gestasöngvarana Emmsjé Gauta, Högna og Röggu Gísla. Helgi var líka með upphitunarveislu í Popplandi í std. 12 á afmælisdaginn þegar hann spilaði nokkur lög fyrir boðsgesti sem nældu sér í miða á Rás 2. En hljómsveitin hans Helga, Síðan Skein Sól, hélt upp á 30 ára afmæli fyrir rúmum tveimur árum, laugardaginn 25. mars 2017, nákvæmlega 30 árum eftir að fyrstu tónleikarnir voru haldnir ( 25. mars 1987 ). Sólin spilaði líka á nokkrum tónleikum fyrir norðan, á Akureyri og Siglufirði, og svo voru tvennir tónleikar í Háskólabíó þetta laugardagskvöld í mars. Á sviðinu voru Helgi Björns, gítarleikarinn Eyjó, bassaleikarin Jakob Smári og trommarinn Ingó, en þannig skipuð gerði hljómsveitin fyrstu plöturnar : 1988 : Síðan Skein Sól 1989 : Ég stend á skýi 1990 : Halló ég elska þig 1991 : Klikkað Svo komu fleiri plötur og liðsskipan breyttist – 1992 : Toppurinn ) 1993 : SSSól 1994 : Blóð 1999 : 88 - 99 safnplata Með þeim fjórum á sviðinu voru svo Stefán Már Magnússon gítarleikari og hljómborðsleikarinn Hrafn Thoroddsen, Atli Örvarsson kvikmyndatónskáld á píanó og harmonikku. Helgi Svavar Helgason á slagverk og svo þrír blásarar ; Samúel Jón Samúelson básúna, Kjartan Hákonarson á trompet og Jóel Pálsson á saxófón. Það var smekkfullt og uppselt á báða tónleikana laugardagskvöldið 25. Mars en þeir fyrri voru hljóðritaðir fyrir Rás 2 og heyrast í Konsert vikunnar. Síðan Skein Sól 30 ára! Í tilefni af sextugsamæli Helga Björns.
|
Bilun hjá Vodafone olli töluverðri ringulreið í verslun Bónus á Akureyri milli klukkan tvö og þrjú í dag. Verslunin gat ekki tekið við kortagreiðslum og skildi fólk eftir innkaupin í körfunum. Rafmagnsbilun í dreifikerfi Vodafone á Norðurlandi leiddi til þess að ýmsar verslanir með beintengda posa, sjálfvirkar bensíndælur og hraðbankar virkuðu ekki. Jón Sævar Sveinnsson verslunarstjóri í Bónus við Langholt á Akureyri sagði i viðtali við fréttastofu RÚV að starfsmenn verslunarinnar hafi sett upp skilti sem á stóð að einungis væri tekið við peningum í versluninni. Í kjölfarið hafi tekið að sér að geyma innkaupakörfur fyrir fólk en jafnframt að starfsmenn hafi þurft að týna upp úr yfirgefnum körfum. Eftir um það bil klukkustund tókst að tengja verslunina inn á annan vefþjón. Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Vodafone sagði að sjónvarpsnotendur sem fá sjónvarpið í gegnum net Vodafone hafi misst þá þjónustu yfir miðjan dag. Sjónvarpið datt út á svæðinu frá Sauðárkróki til Húsavíkur. Búið er að gera við bilunina og var kerfið komið í samt lag um klukkan fjögur.
|
Spánverjinn Michu hefur farið gjörsamlega á kostum á fyrstu leiktíð sinni í ensku úrvalsdeildinni og er markahæstur þar með 12 mörk fyrir Swansea. Hann segir það heiður að vera orðaður nú við félög á borð við Atlético Madrid en er hæstánægður í Wales. " Ég er ánægður hérna, spila næstum hverja mínútu og er bara hæstánægður, " sagði Michu við Marca. " Það er alltaf gaman að vera orðaður við lið eins og Atlético Madrid, eitt það stærsta á Spáni, en ég er mjög ánægður núna hjá Swansea, " sagði Michu. Hann kom til Swansea fyrir aðeins tvær milljónir punda frá Rayo Vallecano en ljóst er að verðmiðinn er orðinn margfalt hærri núna. Michu er 26 ára gamall og getur nú látið sig dreyma um að fá tækifæri með heims - og Evrópumeistaraliði Spánverja. " Ef ég yrði valinn þá væri það gaman. Það er frábært að vera búinn að skora 12 mörk en umfram allt þá nýt ég bara þess að vera hjá Swansea. Hérna þarf maður alltaf að berjast fyrir sínu, " sagði Michu sem verður í eldlínunni með Swansea gegn Middlesbrough á morgun í deildabikarnum.
|
Algarve-bikarinn Víðir Sigurðsson Guðmundur Hilmarsson Fjórða árið í röð kvaddi kvennalandsliðið í knattspyrnu Algarve-bikarinn með sigri í lokaleiknum. Ísland hefur slegið eign sinni á 9. sætið í þessu sterka tólf liða móti því þriðja árið í röð varð það lokaniðurstaða liðsins. Í fyrra eftir sigur á Dönum í lokaleiknum, þar á undan eftir sigur á Kínverjum, en árið 2016 vann Ísland sigur á Nýja-Sjálandi í leik um bronsverðlaunin á mótinu. Ísland hefur haft gott tak á Portúgal í viðureignum þjóðanna og það breyttist ekki í gær. Ísland vann öruggan sigur, 4 : 1, og var yfir frá og með 2. mínútu þegar Agla María Albertsdóttir skoraði. Portúgal hefur tekið miklum framförum undanfarin ár, komst á EM í Hollandi og vann óvæntan sigur á Svíum í fyrsta leik sínum í Algarve-bikarnum á þessu móti. Gestgjafarnir voru því sýnd veiði en ekki gefin en íslenska liðið hafði margt að sanna eftir afar slaka frammistöðu gegn Skotum á mánudaginn. Fyrri hálfleikurinn var sérstaklega góður af hálfu Íslands í gær. Selma Sól Magnúsdóttir kom liðinu í þægilega 2 : 0 stöðu fyrir hlé og segja má að liðið hafi siglt sigrinum heim af öryggi í seinni hálfleik. Undir lokin minnti markadrottning landsliðsins, Margrét Lára Viðarsdóttir, á sig. Hún skoraði þriðja mark Íslands og átti síðan stungusendingu á Svövu Rós Guðmundsdóttur sem skoraði fjórða markið strax eftir að portúgalska liðið hafði náð að minnka muninn. Þetta er fyrsta landsliðsmark Margrétar Láru frá því í júní 2016 þegar hún skoraði í 4 : 0 útisigri á Skotum í undankeppni EM. Þar með eru mörkin hennar fyrir A-landslið Íslands orðin 78 talsins og hún er sem fyrr sú langmarkahæsta frá upphafi. Markið gaf aukakraft " Ég var mjög ánægð með útfærslu okkar á leiknum. Það gaf aukakraft að skora strax eftir tveggja mínútna leik. Ég valdi hlutkestið og við ákváðum að byrja á móti nokkuð stífum vindi. Við byrjuðum leikinn af krafti og ungu stelpurnar í okkar liði nýttu hæfileika sína vel. Við höfðum góð tök á leiknum allan tímann og ég var virkilega ánægð með að við skyldum ná að skora fjögur mörk en við hefðum mátt sleppa því að fá eitt mark á okkur, " sagði Sif Atladóttir, en hún bar fyrirliðabandið í gær í stað Söru Bjarkar Gunnarsdóttir sem sat á varamannabekknum allan tímann. Portúgal – Ísland 1 : 4 Parchal, Portúgal, Algarve-bikarinn, miðvikudag 6. mars 2019. Skilyrði : Sextán stiga hiti og hálfskýjað. Nokkur vindur. Skot : Portúgal 9 ( 5 ) – Ísland 10 ( 5 ). Horn : Portúgal 5 – Ísland 0. Portúgal : ( 4-4-2 ) Mark : Patricia Morais. Vörn : Ana Cristina Leite, Silvia Rebelo, Carole Costa, Mónica Mendes. Miðja : Vanessa Marques, Dolores Silva, Cláudia Neto, Cláudia Lima ( Ana Capeta 46. ) Sókn : Andreia Norton, Laura Luis ( Tatiana Pinto 46. ) Ísland : ( 4-5-1 ) Mark : Sandra Sigurðardóttir. Vörn : Ásta Eir Árnadóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir ( Dagný Brynjarsdóttir 73 ), Sif Atladóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir. Miðja : Selma Sól Magnúsdóttir ( Svava Rós Guðmundsdóttir 80 ), Sigríður Lára Garðarsdóttir, Elín Metta Jensen ( Guðrún Arnardóttir 73 ), Andrea Rán Hauksdóttir, Agla María Albertsdóttir ( Rakel Hönnudóttir 80 ). Sókn : Berglind Björg Þorvaldsdóttir ( Margrét Lára Viðarsdóttir 64 ). Dómari : Lydia Tafesse Abebe, Eþíópíu. Áhorfendur : Um 200. 0 : 1 Agla María Albertsdóttir 2. fékk sendingu frá Elínu Mettu, lék að vinstra vítateigshorni og skoraði með föstu skoti neðst í vinstra hornið. 0 : 2 Selma Sól Magnúsdóttir 38. fékk boltann í vítateignum frá Berglindi Björgu eftir snögga sókn og þrumaði honum neðst í vinstra hornið. 0 : 3 Margrét Lára Viðarsdóttir 88. eftir skyndisókn og sendingu Dagnýjar Brynjarsdóttur frá vinstri. 1 : 3 Mónica Mendes 89. með skalla af stuttu færi. 1 : 4 Svava Rós Guðmundsdóttir 90. eftir stungusendingu Margrétar Láru innfyrir vörnina. Gul spjöld : Agla María ( Íslandi ) 55. ( brot ), Ásta Eir ( Íslandi ) 62. ( brot ), Elín Metta ( Íslandi ) 73. ( brot ). * Selma Sól Magnúsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir skoruðu báðar sitt fyrsta mark fyrir A-landslið Íslands og Agla María Albertsdóttir skoraði sitt annað landsliðsmark.
|
„ Miðað við þann fjölda sem við reiknum með að losni úr sóttkví í dag og á morgun eftir seinni skimun og farþegaáætlanir næstu daga þá sýnist okkur að við séum að horfa á óbreytta stöðu yfir helgina allavega, “ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, um stöðuna á sóttvarnahúsum. Greint var frá því fyrr í dag að það stefnir í metheldi í fjölda komufarþega, til landsisn og þeirra sem munu dvelja í sóttvarnahúsum. Gunnlaugur segir að staðan sé tekin einn dag í einu. „ Við vitum ekki hvað eru margir farþegar um borð í hverri vél og hversu margir eru bólusettir. Það er líka alltaf einhver hreyfing á fjölda fluga. Einhverjum flugum sem áttu að vera um helgina hefur verið aflýst til dæmis, “ segir Gunnlaugur.
|
VERSLUNIN Debenhams hefur tekið miklum breytingum frá því hún var opnuð fyrir fimm árum. Í tilefni 5 ára afmælisins, sem verður 10. október, var ákveðið að fara í stórbreytingar. Í fréttatilkynningu kemur fram að vinsælu merkin haldi áfram og ný þekkt og spennandi merki bætist við. Dömudeildin hefur verið stækkuð með því að flytja undirföt og skó á fyrstu hæð í stærra rými.
|
" Ég hef verið að berjast gegn þessu í mörg ár, en það hlustar enginn á mig. En ef þetta heldur svona áfram hætti ég að gefa út tónlist, " segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sem hefur fengið sig fullsaddan á því að fólk geti náð í tónlistina hans án þess að greiða fyrir hana. Hann segir að ef ekki verði breyting á muni hann hætta að gefa út tónlist áður en langt um líður. " Ég er mjög alvarlega að íhuga þetta. Þá mun ég bara lifa á því að spila á tónleikum. Þá myndi ég sennilega fara þá leið að taka upp eitt og eitt lag og setja í útvarp. " Bubbi segir ekki eingöngu um það að ræða að fólk geti náð í tónlist sína á netinu án þess að borga, heldur séu innlendir aðilar einnig farnir að selja verk hans á netinu, án alls samráðs við hann. " Ef maður leitar að Bubba Morthens á netinu kemur í ljós að menn eru bæði að bjóða tónlistina mína og alla katalóga til sölu á netinu. Þannig að ég sé ekki tilganginn með þessu. Þetta er lifibrauðið mitt og ég get ekki verið að mata einhverja ræningja á tónlistinni minni. Það kostar mig frá einni og upp í fimm milljónir að gera plötu. Fjórir naglar kostaði mig til dæmis um það bil 4,5 milljónir, " útskýrir Bubbi og bætir því við að vegna niðurhals verði hann af tekjum af sölu á 500 til 2.000 plötum við hverja útgáfu. Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðnu í dag
|
Sorglegt er að sjá hvernig embættismenn hjá Vegagerðinni ætla sér að eyðileggja Mosfellsdalinn með breikkun vegarins, hringtorgum, undirgöngum, tengivegum og malbiki, til þess eins að fleiri farskjótar geti ekið greiðlegar austur á Þingvöll. Stór hluti umferðarinnar streymir í gegnum alla fegurðina og kemst á „ hraðbrautina “ yfir Lyngdalsheiði, en nú standa yfir lagningar á „ hraðbrautum “ yfir Kjósarskarð, milli Kjósar og Þingvalla og Uxahryggi, milli Borgarfjarðar og Þingvalla. Allri þessari umferð er stefnt í gegnum Mosfellsdalinn, án þess að tekið sé með í reikninginn að fjöldi ferðamanna hefur áttatíufaldast síðan embættismenn Vegagerðarinnar ákváðu að leggja þessa góðu vegi, en ýttu undir þetta rosalega gegnumstreymi í gegnum Þingvelli og Mosfellsdal. Dalbotninn er með frjósamari landsvæðum til allrar jarðræktar sem hugsast getur. Þar er langt niður á berg, sem er mikill mínus við vegagerð, peningalega séð. Þetta gegnumstreymi er orðið of mikið og stjórnlaust fyrir þennan veg, bæði Mosfellsdalinn og Þjóðgarðinn á Þingvöllum. Eðlilegast er að allir sem ætla og vilja njóta fegurðar og friðsældar þjóðgarðsins á Þingvöllum borgi aðgangseyri fyrir upplifunina og borgi fyrir þá þjónustu sem þar er hægt að veita. Þá myndi gegnumstreymið minnka til muna á Þingvallavegi og innan þjóðgarðsins. Nýjan veg ofan á þann gamla En það þarf annan veg yfir Mosfellsheiði. Þann sem var notaður áður en núverandi vegur var byggður í einum hlandspreng fyrir Alþingishátíðina 1930. Gamla veginn sem afi minn Guðjón byggði snemma á síðustu öld og er friðaður núna, vonandi með það í huga að í framtíðinni yrði hann endurbyggður. Hann liggur upp frá Geithálsi og austur í Þingvallasveit þó ekki í gegnum djúpa dalinn sem Magnús Grímsson, skáld orti um kvæðið : „ Nú ríkir kyrrð í djúpum dal … “ Gamli vegurinn var byggður með tilliti til snjóalaga og er því snjóléttari, styttri og í alla staði fallegri en blessuð Mosfellsheiðin, sem er eitt helv … veðravíti. Í bók Jónasar í Stardal vegavinnustjóra „ Menn og minjaþættir “ ( Ís-land 2004 ) lýsir hann í smáatriðum tilurð nýja Þingvallavegarins og er að afsaka það vegstæði og gera gys að því, en hann fylgdi þeirri veglagningu frá upphafi til enda. Vegurinn var byggður á tveimur sumrum, í akkorði og allt kapp lagt á að ljúka verkinu sem fyrst eftir að Jónas frá Hriflu vildi halda Alþingishátíð í tilefni þess að 1000 ár voru liðin frá því að Íslendingar stofnuðu allsherjarþing á Þingvöllum. Takk fyrir – fyrsta alvarlega Þingvallahátíðarvegagerðaræðið, en nokkur hafa þau verið síðan og núna lítur út fyrir að þarna sé hátíð á hverjum einasta degi alla daga, a.m.k. eftir umferðinni að dæma. Freki kallinn á ferð Ákvörðun um nýtt vegstæði til Þingvalla, var tekin í bræðiskasti af einhverjum skapofsamanni sem var fógeti í Reykjavík og formaður nefndar um endurbyggingu Þingvallavegar. Freki kallinn þverneitaði að lagfæra og breikka gamla veginn og ærðist af því að hann fékk ekki að byggja nýjan í sínu nafni og hótaði að segja af sér nefndarstjórn ef hann fengi ekki að ráða. Jónas og vegamálastjóri urðu hræddir, fóru því og fundu nýtt vegstæði, byggt með það í huga að sem styst væri í möl. Eru því beygjur og sveigjur á veginum og hann lagður í alkunn veðravíti, en aðalatriðið var að menn með skóflu og hestakerru væru sem fljótastir að ná í vagnhlass. Til að mynda þótti góður ofaníburður á Bugðueyrum og við Vilborgarkeldu og vegurinn tekur mið af því. Ef gamli vegurinn yrði endurunninn yrði það aðeins um 18 kílómetra veglagning á þegar reyndu vegstæði. Þar er engin byggð og hægt að gera greiðfærari leið, eyðileggja ekki neitt fyrir neinum, nema kannski nokkrum lóum. Það hlýtur að vera hagkvæmara en að hrúga upp öllum þeim umferðarmannvirkjum hér í dalnum sem stefnt er að, með tilheyrandi eyðileggingu á gróðursælu og byggilegu svæði. Nú er í Mosfellsdal rekin ein eða fleiri atvinnustarfsemi á öllum afleggjurum og hefur alla burði í að eflast, ef ekki verður hellt malbiki og steypu og hringtorgum yfir allan þennan gjöfula og lífræna jarðvegsgrunn. Svo er spurning hver ákvað það að Þingvellir gætu tekið við allri þessari umferð, og hvort Þingvellir þoli allan þennan fjölda. Þeir sem stjórna Vegagerðinni, hljóta að verða að finna lausn á því hvort það sé verjandi að nota þjóðgarðinn á Þingvöllum sem hjáleið fyrir fólk sem á ekkert erindi í Þingvallasveitina, heldur er að fara norður, austur eða jafnvel vestur á firði og hefur engan húmor fyrir friðsældinni og fegurðinni, heldur er að drífa sig að sinna sínu í fjarlægari sveitum. Samantekt Best væri að hlífa Þingvöllum sem hjáleið og banna bílaumferð þar, nema rafmagnsvagna, sem reknir væru af Þjóðgarðinum. Gamli friðaði vegurinn sem byggður var með tilliti til veðurfars og snjóalaga og liggur upp frá Suðurlandsvegi yrði endurbyggður. Vegurinn um Mosfellsdal sem er sprunginn, getur ágætlega nýst þeirri starfsemi sem þegar er hér í dalnum og fer stöðugt vaxandi. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.
|
J-listi umbótasinnaðra Blönduósinga með almannaheill og jafnræði að leiðarljósi býður nú fram við sveitarstjórnarkosningarnar á Blönduósi þann 31. maí næstkomandi. Listann skipta : 1. Hörður Ríkharðsson fræðsluerindreki, Brekkubyggð 4 2. Oddný María Gunnarsdóttir þjónustufulltrúi, Brekkubyggð 12 3. Sindri Páll Bjarnason bóndi, Neðri-Mýrum 4. Harpa Hermannsdóttir sérkennari, Hólabraut 11 5. Valdimar Guðmannsson iðnverkamaður, Hlíðarbraut 1 6. Zanný Lind Hjaltadóttir sérfræðingur, Sturluhóli 7. Guðmundur A. Sigurjónsson byggingariðnfræðinemi, Skúlabraut 4 8. Erla Ísafold Sigurðardóttir stöðvarstjóri Íslandspósts, Heiðarbraut 8 9. Bergþór Pálsson kjötiðnaðarmaður, Heiðarbraut 6 10. Kristín Jóna Sigurðardóttir kennari, Hólabraut 9 11. Pawel Mickiewicz iðnverkamaður, Skúlabraut 19 12. Ingibjörg Signý Aadnegard sjúkraliði, Hlíðarbraut 3 13. Hávarður Sigurjónsson verslunarmaður, Hlíðarbraut 4 14. Halla Bernódusdóttir forstöðukona, Mýrarbraut 5
|
Vefsíðan Flight Club hjá hraðsendingafyrirtækinu Precious, hljómar hér um bil of gott til að vera satt : Leigubíll og frítt flug fram og til baka, í skiptum fyrir það eitt að skutlast með sendingu milli staða. Precious ( www.trackprecious.com ) er snjalltækjavænt sendlafyrirtæki fyrir kröfuharða viðskiptavini sem þurfa að koma mikilvægum sendingum fumlaust og hratt á milli staða. Stundum dugar ekki að stóla á DHL og UPS og þarf ekkert minna en að láta einhvern bera sendinguna í eigin persónu frá sendanda, út á flugvöll, upp í vél, og áfram alla leið í hendur viðtakandans. Hin hliðin á rekstrinum er Flight Club, þar sem áhugasamir geta boðist til að gerast sendlar. Fyrir það eitt að burðast með tösku í handfarangursstærð og leggja smá lykkju á leið sína út á flugvöllinn og aftur á áfangastað, mun Flight Club sjá um að borga fyrir flugsætið og Uber-leigubíl. Sjálfboðaliðarnir sækja þar til gert snjallsímaforrit, tilgreina hvert þá langar að fara og hvenær. Precious parar síðan saman sendendur og sendla og sér forritið í símanum til þess að allt sé á áætlun og enginn missi af flugi. Aðstandendur Precious lofa að enginn verður gabbaður til að fljúga með ólöglegan eða hættulegan varning. Í augnablikinu þjónustar fyrirtækið helstu stórborgir Bandaríkjanna, frá Los Angeles og Oahu í vestri til New York og Boston austri. ai@mbl.is
|
Rússneski ellilífeyrisþeginn Tamara Samsonova, 68 ára, var á dögunum dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir morð af yfirlögðu ráði. Tamara, sem í Rússlandi gengur undir nafninu „ Amma Kviðrista “ svæfði vinkonu sína, Valentinu Ulanova, sem hún hafði atvinnu af að annast. Tamara byrlaði Valentinu svefnlyf, nánar tiltekið 50 muldar svefntöflur sem hún blandaði út í salat og færði fórnarlambi sínu. Þegar Valentina missti loks meðvitund þá brytjaði Tamara hana í búta, skar höfuðið af fórnarlambinu með sög, setti höfuð því næst í pott og sauð það. Óhugnalegt myndband fylgir með fréttinni þar sem „ Amma Kviðrista “ sést ganga út úr íbúð sinni með pottinn og farga líkamsleifum Valentinu í grennd við fjölbýlishúsið. Hið viðurstyggilega morð átti sér stað árið 2015 en fyrir það hafði Tamara ítrekað sagt vinum sínum og kunningjum að hún yrði fræg og vinsæl. Dómarinn, Pavel Smirnov, kvað upp dóminn yfir Tamöru og lýsti því yfir að hún þyrfti að vera vistuð til æviloka á hámarksöryggisstofnun fyrir andlega veika einstaklinga. Þá kom fram að Tamara væri greind með „ ofsóknargeðklofa “ ( e. paranoid schizophrenia ). Óhugnalegt myndband Talið er að Tamara hafi fjölmörg önnur mannlíf á samviskunni en líklega verða þau mál aldrei upplýst. Því hefur verið haldið að hún hafi myrt leigjendur af íbúð sinni auk þess sem eiginmaður hennar, Leonid, hvarf sporlaust fyrir rúmum áratug. Á Tamara að hafa sagt lögreglu að hann hafi yfirgefið hana fyrir yngri konu og hafði lögreglan ekkert í höndunum til sem benti til sektar hennar. iWteiturgunnardg Tamara játaði í upphafi þrjú önnur mannsdráp en samkvæmt frétt Daily Mail fá lögreglumenn ekki að yfirheyra hana frekar, að svo stöddu. Þess er þó líklega ekki langt að bíða þar til að hún verður ákærð fyrir fleiri morð. Dagbókafærslur Tamöru benda til þess að fórnarlömb hennar séu að minnsta kosti ellefu talsins. Færslurnar skrifaði hún á rússnesku, ensku og þýsku. Í einni slíkri færslu segir : „ Ég drap Volodya, leigjandann minn. Ég skar hann niður í bita inni á baðherbergi með hníf, setti bitana í plastboka og dreifði þeim síðan um Frunzensky-hverfið. “ Þá fann lögreglan blóð úr öðrum leigjanda, Sergei Potyavin, inni á baðherbergi „ Ömmu Kviðristu “. Á Tamara að hafa játað morðið við vinkonu sína, Önnu Batalinu. Hér má sjá myndbandið óhugnalega :
|
Á hvað er allt þetta fólk að hlusta? Þú finnur það hér. Laugardaginn fyrir páska var fullt tungl, að minnsta kosti var haldið Tunglkvöld í galleríi Kling & Bang við Hverfisgötu. Á Tunglkvöldi lásu að þessu sinni skáldin Óskar Árni og Halldór Halldórsson úr splunkunýjum verkum sínum. „ Tunglið kallar á skáldskap og Tunglið forlag svarar kallinu með útgáfu tunglbóka. Tunglbækur eru nokkuð ólíkar jarðarbókum hvað varðar bæði snið og innihald. Þær innihalda prósaskáldskap sem virðir að vettugi algengustu hugmyndir um lögun skáldsagna. “ Svo rita Tunglmenn á facebook síðu sína Tunglið forlag og laugardaginn fyrir páska var enn haldið Tunglkvöld. Óskar Árni Óskarsson las upp úr Tunglbók sinni Kúbudagbókin og Halldór Halldórsson - sem er sami maður og uppistandarinn Dóri DNA, og þó ekki - las upp úr fyrstu bók sinni, sem jafnframt er 10. tunglbókin og nefnist Hugmyndir : Andvirði hundrað milljónir. Frá 15. júní árið 2013 hafa Tunglkvöld verið haldin nokkuð reglulega á ýmsum stöðum í Reykjavík, í Hljómskálanum, Loft hostel, Nýló við Skúlagötu og nú síðast laugardaginn fyrir páska í galleríi Kling og Bang. Ekki var tilefnið alltaf útgáfa Tunglbóka, en Tungl forlag hefur t.a.m. gengist fyrir ljóðakvöldi með placati auk þess sem forlaginu tengist raftímaritið Skíðblaðnir. Bækur eru þó aðall forlagsins eins og kannski gefur að skilja, hver bók er gefin út í 69 eintökum og þau aðeins seld á tunglkvöldum. Þannig séð er það mikið rarítet, svona tunglbók, enda mátti sjá nokkurn mannsöfnuð undir fullu tungli laugardaginn fyrir páska, þ.e. 4. apríl síðastliðinn, freista inngöngu í Kling og Bang galleríið við Hverfisgötu og takast sú ætlan enda þar nokkuð á borð borið. Hér ofulítið sýnishorn. Tunglbók nr. 1 var Bréf frá Bútan eftir einn aðstandenda forlagsins Ragnar Helga Ólafsson og vísindalegar athuganir Kristínar Ómarsdóttur undir titlinum Eilífar speglanir. Mánuði síðar litu svo svo bækurnar Kvíðasnillingurinn eftir Sverri Norland og Veraldarsaga ( mín ) eftir Pétur Gunnarsson dagsins ljós eða öllu heldur tunglsins ljós - Reyndar komu síðar út bækur eftir sömu höfunda og með svipaða titla í þeirri litlu dagskímu sem íslenkir vetrardagar bjóða upp á – en það er væntanlega allt önnur saga og Tunglinu næsta óviðkomandi. Næstar á stokk á Tunglkvöldi voru svo Margrét Bjarnadóttir og Björk Þorgrímsdóttir til að fagna útgáfu frumraunar sinnar og bókar númer tvö eða Tunglbóka fjögur og fimm eftir því hvernig á það er litið. Líf mitt til dæmis dagbækur 1998 - 2002 heitir bók Margrétar en bók Bjarkar Bananasól Ástarsaga. Nú liðu hins vegar allmargir mánuðir áður en Tungl forlag spratt fram á ný þegar máni óð ský í febrúar árið 2014 og þyrlaði upp 69 eintökum af Spennustöðin – stílabók eftir Hermann Stefánsson og jafnmörgum eintökum af Stálskip – nokkur ævintýri eftir Atla Sigþórsson. Eftir þetta velheppnaða tunglkvöld í þáverandi vistaverum Nýlistasafnsins máttu áhugasamir tunglbókaunnendur góla upp í fullt tunglið mánuð eftir mánuð þar til loks heilt ár var liðið og Tungl útgáfa spratt á ný fram og nú á Loft hostel þar sem haldið var ljóðakvöld með ljóðplacati þar sem fjöldi ljóðskálda, þekktra sem minna þekktra lásu ljóð sín. Einungis leið mánuður þar til net eða raftímaritinu Skíðblaðni tímarita fyrir smásögur var hleypt út í stjörnuþokur alnetsins þar sem ævinlega má krækja í það og sloka í sig smásögum eftir Ragnar Helga Ólafsson, Magnús Sigurðsson sem þekktastur er fyrir eigin ljóð og þýðingar á ljóðum annarr auk þess sem Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Einar Lövdahl og Solveig Johnsen eiga efni í Skíðblaðni. Allar bækur Tunglsins forlags má nálgast á betri bókasöfnum, en þá aðeins að láni!
|
Henrik Larsson, einnig þekktur sem Henke, ( fæddur 20. september 1971 ) er sænskur knattspyrnustjóri og fyrrverandi leikmaður.
|
Konráð Þórisson fæddist 20. mars 1952. Hann lést 4. desember 2014. Útför Konráðs fór fram 16. desember 2014. Afmælisdagurinn hans Konna, 20. mars og minningarnar streyma fram. Við kynntumst ung að aldri, aðeins 21 árs gömul, en okkur fannst við vera býsna fullorðin og tilbúin til að takast á við lífið og tilveruna. Ævintýrið hófst. Við vorum óhrædd við að leita á ný mið, skipta um umhverfi og leita ævintýranna, höfðum alltaf hvort annað. Sagan okkar var þannig samofin í nær 40 ár, vorum sem tvær hliðar á sama pening. Skyndilega urðu sögulok. Konni lést eftir óvænt og skammvinn veikindi. Vágesturinn var miskunnarlaus, krabbamein sem engu hlífði. Gegn því dugði skammt að hafa stundað heilsusamlegt líferni. Við hófum sambúðina okkar í Kjósinni, þar sem við kenndum bæði við Ásgarðsskóla, elsta barnið, Fífan okkar, fæddist þann vetur. Konni stoltur og umhyggjusamur faðir, þrátt fyrir ungan aldur og jafnréttissinni. Keyptum síðan fyrstu íbúðina okkar á Lindargötunni í Reykjavík, lukum bæði námi í líffræði við HÍ. Á sumrin Í Flatey á Breiðafirði áttum við góðar stundir, stunduðum rannsóknir, nutum náttúrunnar og lífsins. Ný tækifæri sköpuðust og við fluttum til Húsavikur, þar sem Konni var útibússtjóri Hafrannsóknar. Hann lék með leikfélaginu á staðnum m.a. hlutverk Fjalla-Eyvindar. Við keyptum okkur litla trétrillu, sem við skröpuðum og máluðum. Veiddum í soðið, fengum ættingjana að sunnan í heimsókn, elduðum nýveiddan fiskinn og höfðum oft aðalbláber sem við tíndum í eftirrétt. Á Húsavík fæddist barn nr. 2, Hrönnin okkar og lífið brosti við okkur. En áfram var haldið til náms í Bergen Í Noregi, þar sem fórum bæði í nám. Að sjálfsögðu var lika ferðast og leikið sér á skíðum þegar færi gafst. Konni lauk námi í fiskifræði sem átti hug hans enda var hann Siglfirðingur að uppruna og því nátengdur þeim mikilvæga grunnatvinnuvegi þjóðarinnar. Eftir heimkomuna var kominn tími á að fullkomna hreiðurgerðina. Litla, gamla húsið okkar í Blesugrófinni var því rifið og nýtt heimili reist á sama stað sem rúmaði alla fjölskylduna. Þá hafði bæst við einkasonurinn, Svavar. Ræktuðum garðinn okkar, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Vísindamaðurinn Konni vann á Hafró, fór á sjóinn, stundaði rannsóknir, skrifaði um þær lærðar greinar. Sinnti félagsstörfum svo sem að vera í stjórn Hafró um árabil. Var formaður starfsmannafélagsins, fór með gamanmál á samkomum með óvæntum uppákomum sem komu jafnvel eiginkonunni á óvart og vöktu gleði og kátínu viðstaddra. Enn á ný var haldið á vit ævintýranna. Sá hluti fjölskyldunnar sem átti heimangengt var að sjálfsögðu með í för til Namibíu þar sem hann stundaði ráðgjafastörf fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands í eitt og hálft ár. Þar naut sín vel víðsýni hans og skilningur á ólíkum aðstæðum mismunandi menningarheima. Tækifærið var notað til að ferðast víða um Afríku og kynnast mannlífi og náttúru. Að sjálfsögðu voru börnin með í för og veitti það þeim farveg til aukins þroska. Hann gerðist heimsforeldri eftir heimkomuna. Kenndi í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu Þjóðanna og ferðum hans til Afríku fyrir skólann fékk ég oft að fljóta með og fékk þannig tækifæri til að fylgjast hve umhyggjusamur kennari hann var. Núna síðast í Tansaníu árið 2012, þar sem hann sá um námskeið í fiskeftirliti fyrir innfædda. Þar setti hann sig inn í þann heim sem þurfti til að geta hjálpað við þær ólíku aðstæður sem þar eru, miðað við Vesturlönd. Eitt af áhugamálunum var að búa til kvikmyndir eða video eins og nú ert gert. Fjársjóður af videomyndum eru afraksturinn. Í safaríferðum í Afríku, af ættingjum og vinum, börnum og barnabörnum. Konnavideo hét framleiðslan. Börnin þrjú og barnabörnin fimm voru honum samt alltaf hugstæðust. Við lásum yfir texta fyrir hvort annað og þökkuðum hvort öðru fyrir yfirlestur til skiptis. Hann í Náttúrfræðingnum, ég færi honum þakkir í bók um vistfræði, þar sem hann var ómetanleg hjálp, hvort tveggja núna á haustmánuðum 2014. Þannig styrktum við hvort annað í okkar nátengdu störfum og vissum bæði hve þakklát við vorum fyrir hvort annað. Umhverfismál og verndun náttúrunnar voru honum hugleikin viðfangsefni og í því samhengi fannst honum skondið að brúðkaupsafmæli okkar, náttúrufræðinganna bar upp á Dag íslenskrar náttúru. Konni var ætíð gleðigjafinn sem lagði ríka áherslu á að auðga líf annarra í kringum sig. Hann kunni þá list að forgangsraða, þannig að þeir sem hann beindi athyglinni að hverju sinni fannst þeir hafa eitthvað sérstakt fram að færa. Hann hvatti til góðra verka með ráðleggingum og gaf sér tíma til að setja sig inn í mismunandi og ólík viðfangsefni allt frá prjónaskap til flókinna vísindagreina og allt þar á milli. Konni var óhræddur við að sýna tilfinningar, fallegur að utan jafnt sem innan og stóð með sínu fólki, hvatti það áfram. Stundum gantaðist ég með það, að hann hafi valið sér réttu íþróttina til að stunda eða skylmingar, ætlaðar til að verja sitt fólk. Trygglyndi, einlægni og heiðarleiki voru hans aðalsmerki. Næsta ævintýri átti að vera hjólhýsið okkar, þar sem gefa átti barnabörnum hlutdeild í ást okkar á landinu okkar fallega, en það ævintýri varð stutt. Áformin okkar um að eldast saman og njóta í sameiningu afraksturs þess lífs sem við höfðum byggt upp í sameiningu voru óvænt harkalega stöðvuð og urðu snögglega að engu. Söknuðurinn er sár. Elsku Konni, þú gafst mér hluta af lífi þínu og ég þér. Við vorum samstíga, en nú er þeirri vegferð því miður lokið. Eftir sit ég hnípin í hreiðrinu okkar, dagarnir hafa lit sínum glatað, veröldin verður aldrei söm aftur. Djúp sorgin er skuggi gleðinnar sem áður var. Það sem áður var er ekki lengur, aðeins minningarnar eftir. Þær birtast í huganum, myndunum sem voru teknar og hægt er að ylja sér við um stund. Kærleikur þinn og þitt gefandi lífsviðhorf, sem fylgir mér til æviloka endurspeglast í okkar sameiginlegu arfleið, börnunum okkar og barnabörnum og verða þeim dýrmætt veganesti inn í framtíðina. Maggan þín
|
* Gylfi Þór Sigurðsson er í úrvalsliði helgarinnar hjá BBC fyrir frammistöðu sína með Swansea í leiknum gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag. Gylfi jafnaði metin fyrir sína menn með glæsilegu marki úr aukaspyrnu og hann var valinn maður leiksins hjá fjölmörgum fjölmiðlum, þar á meðal hjá Sky Sports, The Sun og Eurosport, og hann er í liði vikunnar hjá fleiri fjölmiðlum, til að mynda Daily Star þar sem Jamie Redknapp velur liðið. * Kylfingurinn Gísli Sveinbergsson, GK, sigraði á háskólamóti í Bandaríkjunum sem lauk um helgina. Gísli lék samtals á átta höggum undir pari, en leikið var á Virtues-golfvellinum í Ohio. Gísli sigraði með tveggja högga mun, en hann keppir fyrir Kent-háskólaliðið sem stóð einnig uppi sem sigurvegari í keppni níu skólaliða. Bjarki Pétursson leikur einnig fyrir Kent og varð í 19. sæti í einstaklingskeppninni. * Jón Þór Sigurðsson og Bára Einarsdóttir tryggðu sér um helgina Íslandsmeistaratitilinn í skotfimi með 50 m liggjandi riffli, en bæði urðu þau einnig bikarmeistarar þetta árið. Jón Þór fékk 622,5 stig og var 1,2 stigum frá Íslandsmeti sínu. Arnfinnur Auðunn Jónsson var annar með 610 stig og Valur Richter varð þriðji með 600 stig. Í kvennaflokki fékk Bára 612,7 stig, Jórunn Harðardóttir kom næst með 603,3 stig og Margrét L. Alfreðsdóttir varð þriðja með 595,6 stig. Þá náði kvennasveit Skotíþróttafélags Kópavogs, skipuð Báru, Margréti og Guðrúnu Hafberg, 1.796,2 stigum í liðakeppninni og setti um leið nýtt Íslandsmet. * Körfuknattleiksmaðurinn Þröstur Leó Jóhannsson er genginn í raðir Keflavíkur á ný og gerir hann tveggja ára samning við uppeldisfélagið sitt. Hann hefur spilað með Þór Akureyri síðustu ár og hefur einnig verið í herbúðum Tindastóls. * Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sópaði að sér verðlaunum á lokahófi Cardiff City sem fram fór um helgina. Hann var valinn leikmaður ársins hjá félaginu og bæði samherjar hans og stuðningsmenn félagsins völdu Aron Einar leikmann ársins. Aron hefur komið við sögu í 39 af 45 leikjum liðsins í deildinni og hefur í þeim skorað þrjú mörk og lagt upp þrjú. Cardiff er í 13. sæti ensku B-deildarinnar þegar einni umferð er ólokið.
|
Kínversk stjórnvöld kölluðu sendiherra Noregs á sinn fund í dag til að mótmæla því að Liu Xiaobo skuli hafa fengið friðarverðlaun Nóbels.
|
Ósamræmi er á milli skýringa Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra á því hvernig ákveðið var að gera viljayfirlýsingu á milli íslenska ríkisins og kínverska ríkisins um samstarf í orkumálum og þeirra gagna sem fyrir liggja um þessa viljayfirlýsingu. Illugi, sem svaraði fyrirspurn Bjarkeyjar Gunnarsdóttir Olsen um tengsl hans og Orku Energy á Alþingi í gær, gerði lítið úr aðkomu ráðuneytisins að gerð viljayfirlýsingarinnar um samstarf í orkumálum og sagði að ráðuneytið hefði ekkert komið að gerð viljayfirlýsingarinnar líkt og Bjarkey hélt fram í ræðustól Alþingis. Illugi sagði meðal annars : „ Hitt síðan hvað varðar það að það hafi orðið til í menntamálaráðuneytinu viljayfirlýsing þá er það ekki mjög nákvæm frásögn. “ Tengsl Illuga og Orku Energy hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu mánuði eftir að fyrirtækið var hluti af opinberri heimsókn hans til Kína í mars þar sem hann fundaði meðal annars með því og kínverskum samstarfsaðila þess og undirritaði viljayfirlýsingu um samstarf við kínverska ríkið þar sem nafn fyrirtækisins kemur fram. Illugi starfaði hjá Orku Energy þegar hann var í leyfi frá þingstörfum árið 2011 og kom í ljós í apríl að hann seldi stjórnarformanni fyrirtækisins íbúð sína eftir að hafa lent í fjárhagserfiðleikum og hefur síðan leigt hana af honum. „ [ M ] enntamálaráðuneyti Íslands hefur skipað Orkustofnun, opinbers orkufyrirtækis á Íslandi, ásamt Orku Energy Energy Ltd. til að vera framkvæmdaraðila Íslands. “ Menntamálaráðuneytið valdi Orku Energy Eins og Stundin hefur fjallað um ákvað menntamálaráðuneytið að Orka Energy ætti að vera „ framkvæmdaraðili “ Íslands í samstarfinu við Kína og stendur þetta skýrum stöfum í samstarfsyfirlýsingunni. „ Til að framkvæma það sem kemur fram í þessu samkomulagi hefur vísinda - og tækniráðuneyti Kína ákveðið að skipa SINOPEC Star Petroleum Co. Ltd, sem framkvæmdaraðila Kína, og menntamálaráðuneyti Íslands hefur skipað Orkustofnun, opinbers orkufyrirtækis á Íslandi, ásamt Orku Energy Energy Ltd. til að vera framkvæmdaraðila Íslands. “ Alveg ljóst er út frá þessu orðalagi að það var menntamálaráðuneytið sem veitti Orku Energy þau gæði sem fólust í því að fyrirtækið komst í þessa stöðu. Með því að menntamálaráðuneytið skipaði Orku Energy sem framkvæmdaraðila Íslands í samstarfinu komst fyrirtækið í stjórnskipulega stöðu í samstarfinu við Kína ; það er að segja stöðu sem aðeins ríkisfyrirtæki eins og Orkustofnun eða aðrar stofnanir komast í að öllu jöfnu. Í svari frá utanríkisráðuneytinu kom fram að sú ákvörðun að menntamálaráðuneytið veitti Orku Energy þessa stöðu hefði líklega verið fordæmalaus. „ Almennt er það svo af Íslands hálfu að ekki er getið um einkafyrirtæki í slíkum viljayfirlýsingum, enda hafa slíkir aðilar ekki stjórnskipulega stöðu. Ekkert útilokar þó slíkt ef íslenskum hagsmunum er best sinnt með þeim hætti. “ Ráðuneytið gat aðspurt ekki nefnt eitt annað dæmi um að íslenskt einkafyrirtæki hefði verið gert að framkvæmdaraðila í samstarfsyfirlýsingu við erlent ríki. „ Aldrei á nokkrum tímapunkti í mennta - og menningarráðuneytinu “ „ Aldrei á nokkrum tímapunkti “ Orðrétt sagði Illugi hins vegar á Alþingi í gær að viljayfirlýsingin hefði ekki á „ nokkrum tímapunkti “ verið unnin í ráðuneyti hans jafnvel þó það standi skýrum stöfum í henni að það var ráðuneyti hans sem ákvað hvaða einkafyrirtæki yrði framkvæmdaraðili ríkisins samkvæmt henni. Illugi útskýrði gerð yfirlýsingarinnar með eftirfarandi hætti : „ Það sem gerðist í því máli var að ég hafði samband vegna þess við orkumálamálastjóra þegar horft var til allra þeirra samninga og viljayfirlýsinga sem hafa verið gerðar hvað varðar samskipti Íslands og Kína á sviði jarðhita og beindi til hans að skoða þá möguleika fyrir okkur á grundvelli þess. Það hefur komið fram hjá orkumálastjóra opinberlega hans afskipti af því og að sú viljayfirlýsing var unnin annars vegar af orkumálastjóra og hins vegar af utanríkisráðuneytinu og síðan í samvinnu við vísindaráðuneyti Kína. Aldrei á nokkrum tímapunkti í mennta - og menningarráðuneytinu eins og háttvirtur þingmaður ýjaði að þar sem hann sagði, með leyfi forseta, „ varð til í menntamálaráðuneytinu “. Þetta er rangt ; það var allt öðruvísi að þessu máli staðið. “ Með ofangreindum orðum sínum um orkumálstjóra vísaði Illugi til fréttar í Mogganum þar sem Guðni Jóhannesson, forstjóri Orkustofnunar, sagði að Illugi hefði hringt í fyrir síðustu jól og sagt sér frá Kínaferðinni og væntanlegu samstarfi í orkumálum. „ Ég lýsti mikilli ánægju með þau áform Illuga, enda er ég alltaf að reyna að efna til samskipta, í þeim tilgangi að breiða út reynslu okkar af orkumálum, til þess að skapa mögu - leika fyrir íslenskan iðnað og hugvit. “ Illugi átti því frumkvæð að því að ræða við Orkustofnun enda hafði Illugi líka átt frumkvæði að Kínaheimsókninni með bréfi sem hann sendi til kínverskra ráðamanna síðla árs 2014 en möguleikinn á heimsókn hans til Kína hafði þá verið orðaður. „ Það liggur meðal annars fyrir beiðni frá okkur “ Viljayfirlýsingin gerð að beiðni ráðuneytisins Þá liggur einnig fyrir, samkvæmt því sem ráðuneytisstjórinn í menntamálaráðuneytinu, Ásta Magnúsdóttir, hefur sagt að það var ráðuneytið sem bað um að viljayfirlýsingin yrði gerð. Í tölvupósti frá 18. febrúar 2015 þar sem hún ræðir um skipulagningu Kínaferðarinnar segir Ásta. „ Það liggur meðal annars fyrir beiðni frá okkur um að undirrita MoU [ Viljayfirlýsingu ] um jarðhitarannsóknir, sem við fáum ekki svör við fyrr en eftir áramótaleyfin. “ „ Þá kom fram að það væri sjálfsagt mál fyrir ráðherrana að vera viðstaddir undirritun samstarfssamnings Orkustofnunar og Sinopec “ Orka Energy verður framkvæmdaraðili Íslands Orka Energy átti ekki að vera hluti af samstarfsamningi Íslands og Kína í upphafi en á þriggja daga tímabili, frá 9. mars til 12. mars, breyttist þetta líkt og Stundin hefur greint frá. Í tölvupósti frá sendiráðsritara Íslands í Kína, þar sem hann ræðir um skipulagningu Kínaferðarinnar, sagði eingöngu að Orkustofnun ætti að vera framkvæmdaraðili Íslands en ekki Orka Energy. „ Þá kom fram að það væri sjálfsagt mál fyrir ráðherrana að vera viðstaddir undirritun samstarfssamnings Orkustofnunar og Sinopec um stofnun jarðhitavísindamiðstövarinnar eða Orkustofnunar og Jarðhitavísindamiðstöðvarinnar. “ Þessi tölvupóstur fór meðal annars á starfsfólk menntamálaráðuneytisins. Þremur dögum síðar skrifaði Ragnar hins vegar eftirfarandi tölvupóst og sendi meðal annars á Ástu Magnúsdóttur, ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu en í honum kemur fram að Orka Energy eigi að vera framkvæmdaraðili Íslands. „ Sæll, Guðni gætirðu staðfest hvort eftirfarandi drög séu ásættanleg fyrir ykkur. Ég hef staðfest nafnið á SINOPEC Star sem samstarfsfyrirtæki við forystumann þess og Haukur Harðarson hefur staðfest aðild Orku Energy að samningnum sem framkvæmdaaðila. Nú vantar bara staðfestingu þína svo að sendiráðið geti sent samningsdrögin til Vísindaráðuneytisins til þýðingar og yfirlesturs - tíminn er mjög þröngur svo að ég vona að þú getir svarað um hæl með cc á ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Ath. að við þurfum líka að gera tillögu um gildistíma - í það minnsta þarf ég að vita hvað þið fallist á hjá Orkustofnun og Orku Energy. “ Á þessu þriggja daga tímabili ákvað menntamálaráðuneyti Illuga Gunnarssonar því að Orka Energy skyldi vera framkvæmdaraðili Íslands í samningnum við Kína. Hvernig sú ákvörðun var tekin liggur ekki fyrir en það er ljóst út frá samstarfsyfirlýsingunni að ráðuneytið tók þessa ákvörðun. Menntamálaráðuneytið ákvað því að viljayfirlýsingin skyldi gerð sem og að Orka Energy ætti að vera framkvæmdaraðili ríkisins í samstarfinu og liggja fyrir skriflegar heimildir þess efnis. Þrátt fyrir þetta sagði Illugi á Alþingi að gerð viljayfirlýsingarinnar hefði ekki á „ nokkrum tímapunkti “ farið fram í ráðuneyti hans.
|
Meirihluti hluthafa Laxa fiskeldis ehf. komst í gær að samkomulagi um að greiða atkvæði með kaupum norska félagsins Ice Fish Farm AS á Löxum en viðræður um mögulega yfirtöku hófust í sumar. " Þetta er sóknarsamruni til að sækja fram og byggja upp það sem hvort fyrirtæki fyrir sig hefur verið að vinna í og nýta þau tækifæri sem bjóðast, " segir Guðmundur Gíslason, forstjóri Ice Fish Farm, í samtali við blaðamann. Samruni eykur afkastagetu Ice Fish Farm, sem er móðurfélag Fiskeldis Austfjarða, hefur verið í miklu samstarfi við Laxa Fiskeldi sem elur lax og rekur þrjár seiðaeldisstöðvar í Ölfusi og sjókvíaeldi í Reyðarfirði. Saman reka fyrirtækin laxasláturhús á Djúpavogi með fyrirtækinu Búlandstindi. Guðmundur segir marga kosti felast í sameinuðum kröftum fyrirtækjanna og samruninn muni meðal annars leiða af sér aukna yfirsýn, meiri afkastagetu og betra skipulag, en nú þegar hafi samvinna fyrirtækjanna á Djúpavogi borið mikinn árangur. " Það er mjög mikilvægt að geta haft fulla stjórn á öllu ferlinu og fá að nýta öll tækifærin. [...] Þetta er stór, öflugur og fjárfestingafrekur iðnaður. Því meira sem við getum notað af framleiðslutækjum, þeim mun öflugri og meiri framleiðni næst út úr allri kökunni. " Spurður út í mögulegar hagræðingar vegna yfirtökunnar ítrekar Guðmundur að um sóknarsamruna sé að ræða sem muni leiða til uppbyggingar frekar en eitthvað annað. " Þetta er sóknarbolti. Við erum að sækja fram og okkur vantar frekar starfsfólk en að fækka því. Við erum að setja upp fleiri svæði og stækka. Það er sókn í gangi. " Að sögn Guðmundar er nú verið að byggja upp öflugar seiðastöðvar sem framleiða stór seiði svo hægt sé að koma þeim í sjóinn á farsælan hátt og stytta eldistíma þar. Á þetta að minnka áhættu og tryggja betri árangur. Samruni legið í loftinu í rúmt ár Eins og áður sagði hefur samstarf milli fyrirtækjanna verið mikið en samruni hefur legið í loftinu frá því í nóvember 2020 þegar norska fiskeldisfyrirtækið Måsøval Eiendom AS, sem átti fyrir meirihlutann í Löxum fiskeldi, keypti meirihluta hlutabréfa í Ice Fish Farm. Í samtali við Morgunblaðið fyrir um ári sagði Lars Måsøval, stjórnarformaður Måsøval Eiendom, spurður um möguleika á samruna íslensku fyrirtækjanna, að ekkert lægi ljóst fyrir en kaupin væru háð samþykki norskra og íslenskra samkeppnisyfirvalda. Þyrftu niðurstöður þeirra að liggja fyrir áður en ákvörðun yrði tekin um framhaldið. Í júní á árinu sagði Guðmundur, þá stjórnarformaður Ice Fish Farm, að viðræður milli fyrirtækjanna væru að hefjast og það ætti eftir að koma í ljós hvert þær myndu leiða.
|
Gosið var svo kröftugt að brennisteinsoxíð náði upp í heiðhvolf og hiti lækkaði.
|
Í tæp þrjú ár starfaði svokölluð Pétursnefnd, sem kölluð er í höfuðið á Pétri heitnum Blöndal, að einföldun á bótakerfi eldra fólks og öryrkja. Nefndin skilaði af sér tillögum sem einfalda bótakerfið og hækka lífeyrir, tekur í burtu krónu á móti krónu skerðinguna og bætir í heild kjör eldra fólks verulega. Það skyggði þó á að öryrkjar tóku ekki þátt í lokaafgreiðslu málsins úr nefndinni og þess vegna fá öryrkjar ekki sambærilegar kjarabætur og einföldun á kerfi sínu eins og eldra fólk. Það er auðvitað mjög bagalegt og mikilvægt að forysta ÖBÍ komi strax að samningaborðinu að loknum kosningum og lokið verði við samninga við þá svo öryrkjar megi njóta sömu kjara og einföldunar á bótakerfinu eins og til stóð. 300 þúsund lágmarkslífeyrir Með lögunum sem samþykkt voru í lok þings eru eldra fólki tryggðar mestu kjarabætur í áratugi með kerfisbreytingum á almannatryggingakerfinu. Minnihlutinn í þinginu gat ekki stutt kjarabæturnar og sat hjá við afgreiðslu laganna, Með samþykktinni verður almannatryggingakerfið einfaldara og gagnsærra, sanngjarnara og skiljanlegra. Mikilvægustu áherslur nýrra laga utan kerfisbreytingarinnar eru ; 300 þúsund króna lágmarksbætur einstaklinga frá og með 1. janúar 2018 Frítekjumark, 25.000 kr. óháð tegund tekna tryggt Bótaflokkar sameinaðir. „ Króna á móti krónu “ skerðingin er afnumin. 45% skerðingahlutfall allra tekna gagnvart greiðslum almannatrygginga. Hér er um að ræða mjög sanngjarna leið að gera ekki mismun á þeim tekjum sem fólk aflar sér. Stærsti kostnaður við kerfisbreytinguna og hækkanir koma til framkvæmda strax um áramótin og nemur heildarkostnaður vegna þeirra 10.800 milljónum, 10,8 milljörðum króna. Liprara og sveigjanlegra kerfi Eitt af helstu verkefnum Pétursnefndarinnar var að gera lífeyriskerfið sveigjanlegra og nú má frá og með áramótum fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs, rétt eins og flýta má lífeyristöku, en þó er það ekki hægt fyrir 65 ára aldur. Bæði frestun og flýtir lífeyristöku hafa varanleg áhrif á fjárhæð lífeyrisins. Byrji fólk að taka hann snemma er upphæðin lægri, en hækkar sé hann tekinn síðar. Sá sem á rétt á ellilífeyri frá lífeyrissjóði getur tekið hálfan lífeyri, en frestað töku hins helmingsins, sem þá hækkar í samræmi við reglur viðkomandi lífeyrissjóðs. Samhliða lífeyristöku að hluta má sækja um hálfan lífeyri frá almannatryggingum. Á sama tíma er gert ráð fyrir að lífeyrisaldur hækki úr 67 ára í 70 ár. Þessu til viðbótar var frumvarp um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem unnið var í framhaldi af samstarfi aðila vinnumarkaðarins um að stuðla að samræmingu réttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði, afturkallað á síðustu stundu vegna ósættis hjá opinberum starfsmönnum. Lífeyrisréttindi eru einn mikilvægasti þátturinn í slíkri samræmingu og verður það brýnasta verkefni nýs þings að ljúka málinu fyrir næstu áramót svo koma megi einni mikilvægustu kjarabót allra tíma í framkvæmd. Gott skref til betri kjara Með þessum lögum eins og hér er lýst er það klárt að kjör eldra fólks eru að batna verulega og kerfið að auki einfaldara, gagnsærra og skýrara á allan hátt. Það er mikilvægt að einfalda flækjustigið um leið og við bætum kjörin. Við eru þó sammála um að við ætlum að halda áfram á sömu braut, og taka næstu skref til bættra kjara á næsta kjörtímabili. Heilbrigðiskostnaður mun lækka á næsta ári þegar 60.000 kr. þak kemur á greiðslu sjúkrakostnaðar og næsta skref er að taka lyfjakostnað inn í þá mynd og gera enn betur. Við fögnum hverju skrefi og sýnum í verki að við viljum halda áfram að bæta kjör eldra fólks og öryrkja sem nú verða að koma að samningaborðinu svo þeir njóti líka þeirra bættu kjara sem þeim ber. Ásmundur Friðriksson, alþingismaður. Skipar 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
|
Asíubúum, sérstaklega Kínverjum og Taívönum, hefur fjölgað í haust þegar skoðað er það hlutfall sem keyrir í gegnum Vaðlaheiðargöng. Þetta kemur fram í tilkynningu Vaðlaheiðarganga hf. Kínverjar eru í þriðja sæti og Taívanar í fimmta síðustu sjö daga. Göngin voru opnuð í ársbyrjun og síðan þá hafa Bandaríkjamenn verið fjölmennasti hópurinn, rétt eins og á Keflavíkurflugvelli. Í öðru sæti koma Þjóðverjar og í þriðja Frakkar. Eins og gefur að skilja var hlutfall erlendra ferðamanna hærra yfir sumarmánuðina en það virðist sem svo að Asíubúar heimsæki landið frekar til að sjá norðurljós.
|
HROGNATAKA hófst í Krossanesi á Akureyri, er fjölveiðiskip Samherja hf., Þorsteinn EA og Vilhelm Þorsteinsson EA lönduðu þar loðnu fyrir og um síðustu helgi. Um er að ræða samstarfsverkefni Krossanesverksmiðjunnar og Útgerðarfélags Akureyringa. Hrognatakan fer fram í Krossanesi en frystingin í frystihúsi ÚA á Grenivík. Að sögn Hilmars Steinarssonar verksmiðjustjóra í Krossanesi er búið að frysta 110 - 150 tonn af hrognum en hann var ekki bjartsýnn á að um frekari hrognatöku yrði að ræða að þessu sinni, ekki væri von á skipum til löndunar, auk þess sem útlit væri fyrir að sjómannaverkfall skylli á í vikunni. " Við hefðum viljað fara í frekari hrognatöku en vantar hráefni og vonandi kemur ekki til verkfalls. " Frá áramótum hefur verið landað um 22.500 tonnum af loðnu í Krossanesi.
|
Við rákumst á þetta ótrúlega fallega föndurverkefni á mömmublogginu Fagurkerar. Hún Bára Ragnhildardóttir gerði Ísland úr speglaflísum á vegginn hjá sér og útkoman var virkilega skemmtileg. Við fengum leyfi Báru til þess að deila þessari sniðugu hugmynd með lesendum Bleikt. „ Hugmyndin fæddist þegar ég var að labba Hverfisgötuna og sá samskonar Ísland hangandi á húsvegg. Það listaverk var búið til af nemendum í Listaháskóla Íslands ( það er farið af húsveggnum núna ). Ég gat ekki hætt að hugsa um hvað mér fannst þetta flott listaverk svo um leið og við keyptum íbúðina okkar ákvað ég að einn veggurinn í stofunni væri frátekinn fyrir Íslandsspegil. Þegar ég fór að framkvæma verkefnið var fyrsta skrefið að bjóða Ólafíu frænku minni í heimsókn. Hún er ótrúlega fær listakona og gerði sér lítið fyrir og rissaði upp útlínur af Íslandi upp á vegg fyrir mig, fríhendis að sjálfsögðu. Ef ég ætti ekki Ólafíu mína hefði ég mögulega reynt að nota myndvarpa til að varpa línunum upp og strika svo gróflega eftir þeim. “ „ Því næst var að kaupa spegla flísar og brjóta þær í glerbrot. Ég keypti mínar í IKEA. Þegar ég braut flísarnar fannst mér best að pakka þeim í plast / svartan ruslapoka og handklæði áður en ég lamdi með hamri. Þá fóru brotin ekki út um alla íbúð og þetta varð aðeins snyrtilegra. Svo var ekkert annað eftir en að byrja á púsla. Ég notaði double teip til að festa brotin upp á vegg. “ „ Það sem mig langar að benda fólki á að gera ef það leikur þetta eftir, er að setja spegilinn á plötu en ekki beint á vegginn. Það voru mín stærstu mistök því núna get ég ekki flutt án þess að spegillinn minn verði eftir. “
|
Búast má við frekari eldsneytishækkunum hér á landi ef innkaupaverð á olíu helst í núverandi hæðum. Bensín gæti hækkað um allt að 10 krónur í viðbót. Innkaupaverð á Brent hráolíu stendur nú í um 114 dollurum tunnan, en verðið rauk úr 100 dollurum í 116, einkum vegna mikils óróa í miðausturlöndum. Á föstudaginn lækkaði olíuverð hins vegar aðeins vegna jarðskjálftans í Japan, en Japan er þriðji stærsti innflytjandi olíu í heiminum. Olíuverð nálgast nú óðum hæsta gildi frá upphafi en sumarið 2008 fór verðið yfir 140 dollara tunnan. Ljóst er að haldist olíuverð í þessum hæðum mun það ógna efnahagsbata heimsins, þar sem stærri hluti vergrar landsframleiðslu fer nú í olíukaup, segir í markaðspunktum greiningardeildar Arion-banka. Þá mun hærra olíuverð valda tekjutilfærslu milli aðila. Neytendur tapa á meðan ríkisstjórnir í gegnum skatta og eignarhluti, og hluthafa olíufyrirtækja, græða. Viðskiptablaðið Financial Times heldur því fram að verðhækkanir á olíu haldi hagkerfum heimsins í gíslingu og séu ekki ábætandi þar sem flestar ríkisstjórnir hafi nú þegar skorið umtalsvert niður í ríkisútgjöldum og megi ekki við lægri einkaneyslu en spár gera ráð fyrir. Verðhækkanir valda auk þess verðbólgu sem gæti leitt til hærra vaxtastigs. Hátt olíuverð hefur ekki framhjá okkur Íslendingum, en almennt verð á bensíni er nú um 231 króna fyrir hvern lítra. Hækkandi bensínverð verður til þess að fólk keyrir minna þannig að einkaneysla minnkar og eftirspurn eftir olíu dregst saman. Þá hækka lán einstaklinga vegna verðtryggingar en bensínhækkanir síðustu vikna. Allt þetta leiðir síðan til lægri hagvaxtar. Greiningardeild Arion-banka metur það svo að haldist innkaupaverð óbreytt megi búast við að lítraverð á bensíni geti hækkað um fimm til 10 krónur til viðbótar.
|
Afbrigði hans eru notuð sem skrautplöntur, sem dæmi " Golden Yellow " ( syn.
|
Milan tekur á móti Lazio í 8 - liða úrslitum ítalska bikarsins en liðin áttust við í ítölsku deildinni fyrir skömmu þar sem Lazio lék sér að andstæðingum sínum og vann öruggan 3 - 1 sigur. Sigurvegari leiksins í kvöld mætir annað hvort Inter eða Napoli í undanúrslitum sem mun kynda undir leikmönnum Milan sem vilja erkifjendaslag til að bjarga hörmulegu tímabili. Lazio hefur verið að gera góða hluti á tímabilinu og er í meistaradeildarbaráttu ásamt því að eiga góðan möguleika á að komast í undanúrslit bikarsins. Leikur kvöldsins : 19:45 AC Milan - Lazio
|
Þingvallavatnssiglingar hafa í sumar, eins og undanfarin ár, boðið upp á útsýnissiglingar með bátnum Himbrimanum á Þingvallavatni. Sigling á vatninu er vinsæl afþreying meðal þeirra sem dvelja í tjöldum og sumarbústöðum í uppsveitum Árnessýslu eða aka Þingvallahringinn. Þessar ferðir verða í boði um helgina. " Ferðir Himbrimans um verslunarmannahelgina eru kl. 11, 14 og 17 laugardag, sunnudag og mánudag og á öðrum tímum eftir samkomulagi. Lagt er upp í siglingarnar frá bryggjunni á Skálabrekku í Þingvallasveit. Á hringferð um Þingvallavatn er spjallað um það helsta sem fyrir augu ber í landslaginu, sagðar sögur af mannlífi við vatnið og lífríki þess undir yfirborðinu. Á siglingunni geta svangir ferðalangar keypt heimabakaðar skonsur með reyktri Þingvallableikju og sporðrennt með heitu kakói. Hægt er að velja um þrjár mislangar ferðir ; allt frá 40 mínútna eyjasiglingu til tveggja og hálfrar klukkustundar hringferðar um vatnið með viðkomu í Arnarfelli, þar sem farið er í létta fjallgöngu. Á vefsíðu Þingvallavatnssiglinga er auðvelt að nálgast frekari upplýsingar um útsýnissiglingar Himbrimans á Þingvallavatni. Slóðin er www.himbriminn.is, " segir í fréttatilkynningu.
|
Eftir Hrund Þórsdóttur hrund@mbl.is SIGURÐUR Guðmundsson landlæknir hefur áhyggjur af þróun mála á Landspítala - háskólasjúkrahúsi ( LSH ) en segir að vandamálin sem þar séu uppi séu ekki ný af nálinni heldur hafi þau verið langvinn. Hann hefur því ekki fundið fyrir fjölgun kvartana frá sjúklingum og aðstandendum en þær segir hann þó vera stöðugar. Hann segir vandann nú vera í umræðunni þar sem starfsfólk LSH hafi farið að opna sig meira og segir hann það mjög jákvætt. Sigurður segir gangainnlagnir til dæmis hafa verið vandamál í áratugi. " Við fórum síðast yfir það mál fyrir nokkrum vikum og fengum upplýsingar úr atvikaskrá Landspítalans og eftir því sem mig minnir eru um 60 sjúklingar á göngum einhvern tímann í hverjum mánuði á spítalanum. Það er auðvitað afskaplega miður fyrir veikt fólk að þurfa að liggja á stað sem er einna líkastur járnbrautarstöð á háannatíma, " segir hann. " Fráflæðið af spítalanum hefur líka verið teppt of lengi. Það hefur verið áætlað, sé litið til nokkurra ára, að 80 - 120 sjúklingar hafi legið á Landspítalanum sem væru betur komnir í annars konar umönnun. " Sigurður segir manneklu einnig hafa farið vaxandi undanfarin ár. " Hjúkrunarfræðingaskortur á Íslandi er langvinnur og það eru um sex ár síðan Félag hjúkrunarfræðinga áætlaði að um 300 - 800 manns vantaði í stéttina, " segir hann. " Hagfræðistofnun Íslands gerði nýlega úttekt á fjölda heilbrigðisstarfsmanna og þar ber að sama brunni. Þá er horft bæði til hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða en hér á landi eru þeir færri á hverja hundrað þúsund íbúa en í nálægum löndum. " Vinnuaðstæður fælandi Sigurður kveðst ánægður með að vandinn sé til umræðu og nefnir fyrst þá lausn að mennta þurfi fleiri hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Þá séu um 500 hjúkrunarfræðingar við önnur störf og velta megi fyrir sér hvers vegna það sé. " Aðrir eru líklega betri en ég til að svara til um hvort það sé vegna launanna en það bendir því miður margt til þess að vinnuaðstaðan á Landspítalanum sé fælandi, " segir hann. Aðra lausn segir hann felast í því hvernig megi sinna betur því fólki sem liggi á spítalanum en væri betur komið annars staðar. " Þetta hangir saman við mönnun og veitingu þjónustu í heimahúsum. Þetta er spilaborgarkerfi og ef við getum eflt þjónustu í heimahúsum getur fólk notið þess að vera lengur heima hjá sér og það hefur sýnt sig að þá dregur úr innlögnum á sjúkrahús. " Um hugmyndir þess efnis að sækja starfsfólk út fyrir landsteinana segir Sigurður það vissulega betri kost en engan. " Við eigum að vera mjög opin fyrir því að fá inn fólk frá öðrum löndum en eigi að síður getum við ekki gert ráð fyrir að byggja stóran hluta þjónustunnar upp á fólki sem kemur annars staðar frá. Það væri nauðvörn, " segir hann og á þá einkum við tungumálaörðugleika. " Ef hnökralaus samskipti skipta einhvers staðar miklu máli er það í heilbrigðisþjónustunni og við eigum að geta menntað fólk hér. " Sigurður hefur áhyggjur af þróun mála. " Já, ég hef það og hef haft nokkuð lengi. Við höfum held ég gott heilbrigðiskerfi og eigum að hafa alla burði til að reka þessa þjónustu vel. "
|
Innanhússarkítektarnir Berglind Berndsen og Helga Sigurbjarnadóttir eru að mublera upp íbúð við Holtsveg í Garðabæ. Þær hönnuðu innréttingar og lögðu mikið upp úr því að gera mikið úr gluggatjöldunum. Arkítektastofan Arkís hannaði húseignina sjálfa og skipulag íbúðanna en Berglind og Helga komu inn í verkefnið á seinni stigum. Það er magnað hvað hægt er að búa til fallegt heimili með lýsingu, réttum gluggatjöldum og húsgögnum. Húsgögnin koma frá Norr 11 og gluggatjöldin frá Vogue. Öll sængurföt eru hönnuð af Ingibjörgu Hönnu Bjarnadóttur.
|
Talið er að um 7.000 tungumál séu nú töluð í heiminum en þeim fækkar óðum því að eitt þeirra deyr út á um tveggja vikna fresti. Þegar tungumál deyr út, tapast þekking, “ segir K. David Harrison, málfræðidósent við Swarthmore College í Oregon í Bandaríkjunum, sem hefur kortlagt þau svæði heimsins þar sem flest tungumál eru að deyja út. „ Þegar við töpum tungumáli, týnum við mannlegri þekkingu sem safnast hefur saman í gegnum aldirnar um tímann, árstíðir, dýr, matjurtir, stærðfræði, landslag, goðsagnir, tónlist, hið óþekkta og daglegt líf. “ Um helmingur þeirra tungumála sem nú eru töluð í heiminum hafa aldrei verið til í ritmáli og því er þekkinginuna sem þau geyma hvergi að finna í orðabókum, bókmenntum eða neins konar texta. Þau deyja út með síðustu manneskjunni sem kann að tala málið. Þess vegna er ljóst að þegar Charlie Mungulda deyr tekur hann með sér alla þá þekkingu sem nú er til á ástralska frumbyggjamálinu Amurdag – í dag er hann sá eini sem kann það tungumál. Gregory Anderson, prófessor, sem ásamt Harrisson vinnur að kortlagningu tungumála í útrýmingarhættu, segir að hætta fari að stafa að tungumálum þegar samfélag byrji að líta á móðurmál sitt sem hindrun. Yngri kynslóðirnar temja sér þetta viðhorf fyrst þegar þau sjá að önnur tungumál og útbreiddari gagnast betur í daglegu lífi. Lykillinn að því að endurvekja tungumál er að fá nýjar kynslóðir til að tileinka sér þau. 83 útbreiddustu tungumálin ná nú til um 80% mannkyns en 3.500 af þeim smæstu eru töluð af 0,2% núlifandi manna. Tungumál eru í meiri útrýmingarhættu en plöntur og dýrategundir, segir Anderson. Á listanum sem þeir félagar hafa tekið saman yfir þau svæði heimsins þar sem flest tungumál eru í hættu er að finna 153 tungumál frumbyggja í Norður-Ástralíu. Þrír tala málið Magati Ke, þrír tala Yawuru, og svo Amurdag sem Charlie Mungulda kann einn og hefur engan til að tala við á. Í Suður-Ameríku eru 113 tungumál talin í hættu. Á svæði sem afmarkast af Norðvestursléttum Norður Ameríku og nær frá Bresku Kólumbíu í Kanada og yfir Washington og Oregon - fylki í Bandaríkjunum eru 54 tungumál á síðasta snúningi og yngsti maðurinn sem kann eitthvert þeirra er kominn yfir sextugt. Siletz Dee-ni málið talar nú aðeins einn maður, en það er síðasta núlifandi málið af þeim 27 tungum sem eitt sinn voru notaðar í samskiptum manna á Siletz-verndarsvæði indjána í Oregon. Í Austur-Síberíu í Rússlandi, Kína og Japan eru 23 tungumál í hættu en í þessum löndum hafa stjórnvöld neytt minnihluta hópa til þess að hætta notkun móðurmála sinna og nota þess í stað ríkismálin. Sum þessara mála kunna nú aðeins örfáir gamlir kallar og kellingar. Í Oklohoma, Texas og New Mexico í Bandaríkjunum eru 40 tungumál að hverfa. Í engu fylki Bandaríkjanna eru fleiri frumbyggjamál töluð en í Oklóhóma. Þeirra á meðal er Yuchi - málið, sem talið er óskylt öllum öðrum tungumálum mannkynsins. Árið 2005 var aðeins vitað um fimm gamalmenni sem höfðu vald á því máli. - - Nánar hér.
|
Aldrei jafn mörgum samningum þinglýst á einni viku á þessu ári, meðalverðið þó í lægri kantinum Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu jókst nokkuð í vikunni, eða um 20% milli vikna, en hafði í vikunni á undan dregist saman um 17% milli vikna. Þannig nam veltan í vikunni 1.485 milljónum króna samkvæmt gögnum frá Fasteignaskrá Íslands. Í vikunni á undan nam veltan tæpum 1.240 milljónum króna. Fjögurra vikna meðalvelta hækkar nú þriðju vikuna í röð og nemur nú um 1.375 milljónum króna. Þá hefur fjögurra vikna meðalvelta ekki verið hærri frá því í lok maí en í ágúst var fjögurra vikna meðalveltan undir milljarði króna þrjár vikur í röð. Mest hefur fjögurra vikna meðalvelta verið tæpir 1,6 milljarðar á þessu ári en það var um miðjan maí. Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta hefur nú lækkað um 52% milli ára en á sama tíma í fyrra hafði fjögurra vikna meðalvelta lækkað um 56% milli ára sem ætti að gefa lesendum nokkra hugmynd um það hversu mikið velta á fasteignamarkaði hefur dregist saman á s.l. tveimur árum. Tólf vikna meðalvelta hækkar örlítið á milli vikna, fimmtu vikuna í röð, nú um 22 milljónir króna, og nemur nú 1.167 milljónum króna. Tólf vikna meðalvelta hefur nú dregist saman um 53% milli ára en hafði á sama tíma í fyrra dregist saman um 63% milli ára. Ársbreyting á vikuveltu hefur dregist saman 61%. Rétt er þó að hafa í huga að velta á fasteignamarkaði getur sveiflast nokkuð milli vikna og því er réttara að skoða fleiri vikur saman líkt og gert er hér að ofan. Til gamans má þó skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði. Hún er í dag 1.1226 milljónir króna, og hefur lækkað jafnt og þétt s.l. 20 vikur, samanborið við 3.380 milljónir króna á sama tíma í fyrra og hefur því lækkað um 64% milli ára. Í þessari viku : Alls var 57 kaupsamningum þinglýst í vikunni, sem er nokkuð yfir meðallagi en 47 samningum var þinglýst í vikunni þar á undan. Alls hefur 36 samningum verið þinglýst að meðaltali á viku á þessu ári. Til gamans má geta að aldrei hefur jafn mörgum samningum verið þinglýst í einni viku og nú. Meðalupphæð á hvern samning breytist þó lítið á milli vikna, nam 26 milljónum króna í vikunni, samanborið við 26,3 milljónir króna í vikunni á undan. Meðalupphæð á hvern samning frá áramótum er nú 32,6 milljónir króna.
|
Fyrirtækið Nokia Siemens Network tilkynnti í dag, að störfum hjá fyrirtækinu yrði fækkað um 9 þúsund fyrir lok ársins 2010 en það svarar til 15% fækkunar starfsfólks. Þar af verður um 3000 manns sagt upp í Þýskalandi og á annað þúsund manns í Finnlandi. Fyrirtækið var stofnað árið 2006 þegar finnska fyrirtækið Nokia og þýska fyrirtækið Siemens sameinuðu fjarskiptabúnaðarframleiðsludeildir sínar. Þá var boðað, að starfsfólki yrði fækkað um allt að 15%.
|
Töluvert ber nú af misvísandi sögum og fréttum á samfélagsmiðlum af því að dýralíf blómstri í borgum sem hafa verið settar í sóttkví vegna kórónuveirufaraldursins. Sumar þeirra eru sagðar bókstaflega falsaðar en aðrar misvísandi. Svanir og höfrungar eiga að hafa láti aftur á sér kræla í Feneyjum vegna minni mengunar frá athöfnum manna í faraldrinum og fílahjörð gerði sér glaðan dag í kínversku þorpi á meðan mannfólkið hélt sig fjarri hvert öðru samkvæmt fréttum sem var dreift víða á samfélagsmiðlum eins og Instagram og Tik Tok. Færslurnar hafa jafnvel orðið að fréttum í virðulegum fjölmiðlum, þar á meðal í breska blaðinu The Guardian. Að sögn náttúruvísindatímaritsins National Geographic áttu þessar vinsælu samfélagsmiðlafréttir sér þó ekki stoð í raunveruleikanum. Þannig eru svanir tíðir gestir í síkjum Burano á Fenyjasvæðinu þvert á það sem ætla mátti af vinsælli samfélagsmiðlafærslu. Myndir sem voru teknar af höfrungum sem áttu að vera komnir aftur til Feneyja voru í raun teknar við ítölsku eyjuna Sardiníu í Miðjarðarhafi, hundruð kílómetra frá Feneyjum. Eins var með myndir af fílahjörð sem var sögð hafa ruðst inn í þorp í Yunnan-héraði í Kína og fílarnir orðið svo hífaðir af kornvíni að þeir hafi sofnað í garði. Fílar fóru vissulega í gegnum þorpið nýlega en það er ekki óvanalegt. Myndirnar sem fóru sem eldur í sinu um samfélagsmiðla voru heldur ekki af þeim. Fílarnir urðu heldur ekki ölvaðir. Of margir líkað við tístið til að eyða því National Geographic ræddi við indverska konu sem tísti myndum af svönum í Feneyjum sem um milljón Twitter-notendur líkuðu við. Hún segir tímaritinu að hún hafi séð myndirnar á samfélagsmiðli og ákveðið að setja þær saman í tíst. Hún hafi ekki vitað að svanir væru fastagestir í Burano og aldrei hvarflaði að henni að tístið ætti eftir að fara sigurför um netheiminn. „ Tístið snerist um að deila einhverju sem færði mér gleði á þessum drungalegu tímum. Ég vildi að það væri breytingavalmöguleiki á Twitter fyrir augnablik einmitt eins og þetta, “ segir Kaveri Ganapathy Ahuja sem býr í Nýju-Delí. Hún hefur engu að síður ekki eytt tístinu og segist ekki ætla að gera. Aldrei áður hafi hún fengið eins mikil viðbrögð við tísti og því vilji hún ekki kasta því fyrir róða. Vefsíðan Snopes, sem sérhæfir sig í að staðfesta og hrekja fréttir og fullyrðingar sem fara á flug, bendir á að jafnvel þó að vatnið á myndum frá Feneyjum virðist hreinna nú en áður sé það ekki endilega tilfellið. Vatnið líti vissulega út fyrir að vera tærarar en það sé ekki endilega hreinna. Ástæðan sé líklega sú að vegna útgöngubanns í Feneyjum og annars staðar á Ítalíu hafi dregið verulega úr bátaumferð sem þyrlar alla jafna upp seti í vatninu og gerir það gruggugt.
|
Arsenal hefur fengið japanska framherjann Ryo Miyaichi til liðs við sig. Þessi 18 ára gami leikmaður heillaði Arsene Wenger þegar hann var á reynslu hjá Arsenal síðastliðið sumar. Miyaichi mun núna fara til Feyenoord á láni út tímabilið áður en hann kemur til Englands í sumar. ,, Við erum ánægðir með að Ryo Miyaichi hafi gengið til liðs við okkur, " sagði Arsene Wenger stjóri Arsenal. ,, Hann var á reynslu hjá okkur í sumar og við sáum hæfileika sem að hefur vakið athygli hjá mörgum félögum í heiminum. "
|
Leikjaplan fyrir komandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni var gefið út í morgun. Keppni í deildinni hefst þann 12. september. Bæði Manchester-liðin, City og United, fá frí fyrstu helgina sem leikið er vegna þátttöku þeirra í Evrópukeppni síðustu vikur. Manchester City féll nýverið úr leik í 8 - liða úrslitum Meistaradeildarinnar en United tapaði fyrir Sevilla í undanúrslitum Evrópudeildarinnar. Mikil spenna er fyrir endurkomu hins fornfræga liðs, Leeds United, í deild þeirra bestu en liðið komst upp í úrvalsdeildina í sumar og batt þar með enda á 16 ára eyðimerkurgöngu í neðri deildunum. Leedsarar fá ærið verkefni í upphafi móts þar sem þeir heimsækja Englandsmeistara Liverpool á Anfield. Nýliðar Fulham fá Arsenal í heimsókn í Lundúnaslag og West Bromwich Albion mæta Leicester City. Hér má sjá leikjaplan hvers liðs fyrir sig á heimasíðu breska ríkisútvarpsins, BBC. Fyrsta umferð Crystal Palace - Southampton ( 12. sep ) Fulham - Arsenal ( 12. sep ) Liverpool - Leeds United ( 12. sep ) Tottenham Hotspur - Everton ( 12. sep ) West Bromwich Albion - Leicester City ( 12. sep ) West Ham United - Newcastle United ( 12. sep ) Brighton - Chelsea ( 14. sep ) Sheffield United - Wolves ( 14. sep ) Burnley - Manchester United ( Síðar ) Manchester City - Aston Villa ( Síðar )
|
TOURETTE-samtökin á Íslandi hafa opið hús fyrir foreldra barna með Tourette-heilkenni í kvöld, fimmtudagskvöldið 2. maí, kl. 20.30 í Hátúni 10b, 9. hæð. Þetta opna hús er mánaðarlega, fyrsta fimmtudag hvers mánaðar. Þar gefst foreldrum tækifæri til að spjalla saman yfir kaffibolla um málefni barna sinna, segir í fréttatilkynningu.
|
Juan Pablo Montoya hjá Williams er þeirrar skoðunar að það sé " brjálsemi " af hálfu Jenson Button að yfirgefa BAR-liðið á næsta ári til að keppa fyrir Williams í staðinn. " Mér finnst þetta brjálsemi en þetta er hans val, " sagði Montoya á blaðamannafundi í Búdapest í dag, en þar fer ungverski kappaksturinn fram um helgina. " Ef til vill getur Williams lagað stöðu sína en þeir hafa gjörklúðrað málum í ár. Ef til vill er eitthvað hjá BAR sem honum mislíkar. Liðið snerist allt um hann, Árangur BAR hefur farið batnandi, í síðasta móti sætti hann 10 sæta færslu á rásmarki en varð annar á mark. Eftir slíkt þá skil ég ekki hvernig hugurinn getur stefnt í aðra átt, " sagði Montoya. Button til kynnti í síðustu viku að hann væri á leið til Williams en BAR segir hann þó samningsbundinn þar á bæ út árið 2005. Montoya yfirgefur hins vegar Williams í vertíðarlok og heldur á vit McLaren. Williams varð öðru sæti í keppni bílsmiða í fyrra en er í fjórða sæti sem stendur og ekki unnið kappakstur í meira en ár. Montoya telur að hagur Williams eigi eftir að vænkast en telur að mikið þurfi að koma til eigi það að komast í toppslaginn. " Williams á langt í land, það sannaði í fyrra að getur komist í toppinn en kannski mun það hjálpa því að í ár hefur allt farið í þveröfuga átt, " sagði Montoya.
|
Sjö leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í dag en hæst ber að nefna leik Tottenham Hotspur og Liverpool. Mikel Arteta leiðir sína menn í Arsenal áfram gegn Crystal Palace á Selhurst Park. Chelsea spilar við Burnley á Stamford Bridge og á sama tíma mæta Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton liði Brighton. Leicester spilar við Southampton en fyrri leikur liðanna endaði með 9 - 0 sigri Leicester. Manchester United fær Norwich í heimsókn á Old Trafford áður en Tottenham spilar við topplið Liverpool í London. Leikir dagsins : 12:30 Crystal Palace - Arsenal 15:00 Wolves - Newcastle 15:00 Chelsea - Burnley 15:00 Everton - Brighton 15:00 Leicester - Southampton 15:00 Man Utd - Norwich 17:30 Tottenham - Liverpool
|
Grétar Mar Jónsson þingmaður Frjálslynda flokksins segir furðulegt að það þurfi frumvarp frá óbreyttum þingmanni til þess að samþykkja að farið verði í mál við breska ríkið vegna hryðjuverkalaganna sem sett voru á okkur. Fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum var rædd á Alþingi í kvöld. Grétar segir þetta merki um rólegheit og aðgerðarleysi Ríkisstjórnarinnar í málinu. Hann sagði það ótrúlegt að Ríkisstjórn hafi ekki strax í upphafi ákveðið til hvaða aðgerða ætti að grípa vegna málsins. „ Eins og ég sagði í upphafi þá áttum við að slíta stjórnmálasamstarfinu við Breta, reka sendiherra þeirra héðan úr landi og kalla okkar sendiherra heim. Við áttum að beita sömu aðferðum og við beittum í landhelgisstríðinu og þess vegna að hóta að segja okkur úr Nató vegna þess að Bretland er það, " sagði Grétar í kvöld. Hann sagði þessar aðgerðir Breta vera heinasta dónaskap. „ Þetta eru ekki vinir okkar nú ferkar en áður, þó svo þeir fagni því að eiga viðskipti við okkur þegar við sendum þeim fiskinn okkar. En það er meiri þörf fyrir þá að fá fiskinn okkar en fyrir okkur að selja fiskinn þangað. " Grétar sagði einnig að við værum að renna út á tíma og sagði sorglegt að Ríkisstjórnin hefði ekki verið að tala um málið við skilanefndir bankanna. Hann sagði sinn skilning vera þann að KB banki fengi með samþykkt þessa frumvarps fjármuni til þess að fara í mál við Breta vegna málsins. Össur Skarphéðinsson tók til máls á eftir Grétari og sagðist ekki endilega telja að þetta frumvarp myndi tryggja það að farið yrði í mál við Breta vegna málsin. Hann tók undir að með Grétari og sagði þetta mál verða Bretum til „ ævarandi hneysu ". Grétar ávarpaði Össur sem hæstvirtan olíumálaráðherra og þakkaði Össur fyrir þá nafnbót sem hann sagðist ætla að reyna að standa undir.
|
Auk þess eru ýmis steinefni að finna í Hubei í verulegu magni, þar á meðal bórax, vollastónít, granat, járn, fosfór, kopar, gifs, rútíl, klettasalt, gullamalgam, mangan og vanadium.
|
Foreldrar Elenanor de Freitas, 23 ára konu sem framdi sjálfsvíg þremur dögum áður en hún átti að koma fyrir dóm í Bretlandi, vilja að rannsakað verði hvort opinberir aðilar beri á einhvern hátt ábyrgð á dauða hennar. Freitas kærði karlmann fyrir nauðgun snemma á síðasta ári. Fljótlega fékk hún að vita að málið yrði fellt niður þar sem ósamræmi hefði verið í framburði hennar. Maðurinn sem hún kærði fyrir nauðgun höfðaði því næst mál gegn henni og átti Freitas því að koma fyrir dóm. Freitas fékk taugaáfall á fyrsta ári sínu í háskóla. Þá var hún greind með tvískautaröskun ( e. bipolar disorder ) og fékk viðeigandi meðferð í kjölfarið. Eftir andlát ungu konunnar fannst bréf þar sem hún sagðist óttast að fara fyrir dóm. Frétt BBC
|
" ÞVÍ miður virðist sem með þessu sé verið að misnota sjónvarp allra landsmanna, " segir Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group hf., í bréfi sínu til Páls Magnússonar útvarpsstjóra vegna umfjöllunar Kastljóss um Baugsmálið. Bréfið, ásamt yfirlýsingu frá Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs, og verjendum Jóns Ásgeirs og Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, barst Morgunblaðinu í gærkvöldi. Jón Ásgeir mótmælir vinnubrögðum Kastljóssins og sérstaklega að umfjöllunin skuli hafa verið byggð á viðtölum og gögnum frá Jóni Gerald Sullenberger, sem hafi m.a. verið metinn ótrúverðugur af þremur héraðsdómurum, sem og gögn frá honum. Einnig bendir hann útvarpsstjóra á að umsjónarfólk Kastljóssins, þau Þórhallur Gunnarsson og Jóhanna Vilhjálmsdóttir, sé í vinfengi við Jón Gerald og að annað þeirra hafi m.a. verið gestur hans í bátnum Thee Viking. " Ég trúi ekki að það verði látið viðgangast [ að misnota sjónvarp allra landsmanna ], enda ljóst að trúverðugleiki þess er í húfi, " segir Jón Ásgeir. " Þetta er algerlega ósatt " Jón Ásgeir fer með staðlausa stafi þegar hann segir að Þórhallur Gunnarsson og Jóhanna Vilhjálmsdóttir séu í vinfengi við Jón Gerald Sullenberger, eða hafi verið gestir hans um borð í bátnum Thee Viking, segir Þórhallur í samtali við Morgunblaðið. Þórhallur segir að Jóhanna hafi ekki komið að umfjöllun Kastljóssins um Baugsmálið á nokkurn hátt og óskiljanlegt að nafn hennar sé dregið inn í málið. " Hvorugt okkar er í vinfengi við Jón Gerald Sullenberger, og einu kynni mín af manninum eru í gegnum vinnu mína við fjölmiðla. Önnur samskipti hef ég ekki átt við hann. " Hann segir að hvorki hann né Jóhanna hafi nokkru sinni stigið fæti í bátinn Thee Viking, og þau hafi þar að auki hvorugt komið til Miami í Bandaríkjunum, en þar býr Jón Gerald. " Það er algerlega á hreinu að þetta er algerlega ósatt sem Jón Ásgeir segir þarna. Hann fer algerlega með rangt mál, " segir Þórhallur. Hann segist ekki skilja hvað forstjóra Baugs Group gangi til með yfirlýsingu sinni, nema hún eigi að vera til þess fallin að draga úr trúverðugleika Kastljóssins í umfjöllun þess um Baugsmálið. Umfjölluninni verði haldið áfram í kvöld, og þar verði m.a. svarað því sem fram kemur í yfirlýsingu Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs Group.
|
Síðasta helgi var góð í Hlíðarfjalli. Margt var um manninn sem renndi sér á skíðum í góðu færi en veður setti ofurlítið strik í reikninginn. Nægur snjór er í fjallinu fyrir páskahelgina þegar fólk flykkist jafnan norður til að fara á skíði og snjórinn mun einnig duga vel fyrir Andrésar andar leikana sem haldnir verða eftir páska. Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður segir að nú séu í rauninni kjöraðstæður í Hlíðarfjalli, milt vorveður, gott skíðafæri og nægur snjór.
|
Björgúlfur sat í stjórn Landsbankans frá því í febrúar 2003 fram að bankahruninu.
|
Um síðastliðna helgi hélt Sjóstangveiðifélag Snæfellsness opið sjóstangveiðimót í Ólafsvík. Alls tóku 33 keppendur þátt í mótinu en róið var á tíu bátum og samtals veiddust tíu tegundir fiska. Aflinn var vigtaður á fiskmarkaðinum og heildaraflinn nam 9,5 tonnum. Einar Ingi Einarsson frá Akureyri varð aflahæstur með 711,07 kg. Einar veiddi einnig flesta fiska, eða 289 stykki. Jón Sævar Sigurðsson frá Siglufirði veiddi flestar tegundir, alls átta. Aflahæsta konan var Svala Júlía Ólafsdóttir frá Siglufirði með 460,21 kg og 179 fiska veidda. Þess má geta að Kirkjukór Ólafsvíkur smurði nesti fyrir veiðimennina sem lið í fjáröflun fyrir Frakklandsferð í haust. Guðni Gíslason ritari SjóSnæ segir mótið hafa gengið mjög vel þrátt fyrir leiðinlegt veður. „ Það er mismunandi hvernig fólki gekk. Fyrri daginn þá fengu þeir meira sem fóru út Breiðafjörðinn, en þeir sem fóru inn. Halldóra K. Unnarsdóttir var fyrsti kvenkyns skipstjórinn okkar og hún stóð sig nokkuð vel. Stundum eru menn á sama bát og með sömu veiðarfæri en gengur mis vel. Mótið gekk bara mjög vel þrátt fyrir að veðrið hefði ekki verið eins og óskaðist. Flestir bátarnir fóru vestur fyrir nes, út af Svörtuloftum og jafnvel lengra. Þar fengust stærstu fiskarnir. Allt að 18 - 20 kílóa þorskar. Á mótinu veiddist ekki nema einn pínulítill marhnútur og makríllinn var öðru hvoru að gera vart við sig. Sumir fengu mikið af makríl og aðrir ekki neinn, jafnvel á sama báti. Svona mót eru alltaf mikil keppni, því á opnu mótunum safnar maður stigum í Íslandsmeistarakeppninni. “
|
Hópur Skagstrendinga fór í vikulanga ferð á Hornstrandir á dögunum. Sautján manns tóku þátt í ferðinni, þar af tvö börn. Hópurinn gekk á fjöll, um björg og á jökul og naut einstakrar veðurblíðu svo að segja allan tímann, að því er fram kemur á Skagastrandarvefnum.xml : namespace prefix = o ns = " urn : schemas-microsoft-com : office : office " / Ferðin hófst í Norðurfirði á Ströndum miðvikudaginn 21. júlí. Þaðan var siglt í Hornvík en þangað var komið rétt fyrir hádegi og því um fátt annað að ræða en að koma upp tjaldbúðum og halda síðan í göngu. Hornbjarg freistar allra og var því fyrst gengið út með víkinni og upp á Hnúkinn, fremsta hluta bjargsins. Síðan var gengið því sem næst með bjargbrún inn að tindunum Jörundi og Kálfatindi og aftur inn að tjaldbúðunum við Höfn. Daginn eftir var gengið inn í Hvanndal við Hælavíkurbjarg. Þar er hinn frægi Langikambur, mjór berggangur sem gengur langt út í sjó rétt eins og bryggja. Reykjarfjörður er stórkostlegur staður, ekki aðeins fallegur frá náttúrunnar hendi, heldur hefur þar lengi verið rekin ferðaþjónusta. Árið 1931 var byggð sundlaug í Reykjarfirði því eins og nafnið bendir til er jarðhiti í firðinum. Síðar var hún endurnýjuð og nú er þarna fyrirtaks aðstaða fyrir ferðamenn sem gönguglaðir Skagstrendingar nýttu sér óspart. Í Reykjarfirði var dvalið í fjóra daga. Gengið var á Geirhólma, Þaralátursnes, farið á Drangajökul og gengið á Hljóðabungu og Hrolleifsborg. Sólbrenndir og kátir komu ferðafélagarnir til baka í Norðurfjörð mánudaginn 26. júlí. Flestur hefðu getað hugsað sér að vera lengur á Hornströndum en hlökkuðu þó til að aka suður Strandasýslu enda landslaga óvíða fegurra og tilkomumeira. Myndir frá ferðinni má sjá á Skagastrandarvefnum www.skagastrond.is. Heimild : Skagastrond.is
|
Pavel Nedved sem meðal annars var valinn besti leikmaður Evrópu árið 2003 viðurkennir að hann gæti lagt skóna á hilluna eftir Heimsmeistaramótið í Þýskalandi í sumar. Það mun þó líklega ekki gerast nema Juventus séu sendir niður í Serie B. ,, Það getur allt gerst eftir Heimsmeistarakeppnina. Ég verð 34. ára gamall í sumar og ég veit ekki hvort ég mun spila áfram. Ég hef ekki enn ákveðið mig hvort ég mun hætta með landsliðinu eða ekki, eða hvort ég mun leggja skóna alveg á hilluna. Það er mikið um orðróma í Tórínó um að við gætum fallið niður um deild. Ég verða að bíða og sjá hvernig fer, það mun ákvárða um framtíða mína, ” sagði Neved. Nedved, sem á ennþá tvö ár eftir af samningnum sínum við Juventus, hefur spilað 85 landsleiki með og skorað í þeim 17 mörk. Hann mun vera í eldlínunni með Tékkum í sumar þar sem þeir mæta einmitt meðal annars Ítölum í E riðli.
|
" Enn eru þurrkar í kortunum og þessar skúrir sem hafa verið að koma hafa voða lítið að segja, " segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, um áframhaldandi hættustig almannavarna vegna gróðurelda. Hann bætir þó við að úrkoman hafði mest áhrif á Reykjanesinu og því var hættustig fært niður í óvissustig þar. Fundað var um málið í gærmorgun og staðan hefur lítið breyst. Rögnvaldur segir jarðveginn vera það þurran að hann taki ekki eins vel við rigningum. " Vatnið situr lengur á yfirborðinu og er þá fljótara að gufa upp áður en það nær að fara niður, " segir Rögnvaldur.
|
' Leikstjórn og handrit : Gareth Evans. Aðalhlutverk : Iko Uwais, Joe Taslim, Donny Alamsyah og Yayan Ruhian. 101 mín. Indónesía, 2012. ' Það er ekki á hverjum degi sem færi gefst á að sjá indónesíska kvikmynd og forvitnin var því mikil áður en stigið var inn í sal Laugarásbíós. Um er að ræða hraða hasarmynd sem er leikstýrt og skrifuð af velskum leikstjóra. Myndin segir frá hópi sérsveitarmanna sem sendir eru í byggingu nokkra djúpt í steypufrumskógi Djakartaborgar. Markmiðið er að koma frá völdum höfuðpaur glæpasamtaka sem hefur aðsetur í byggingunni. Persónukynning myndarinnar er fremur slöpp og sú klunnalega beina kynning sem notuð er til að gefa áhorfendum mynd af persónum og aðstæðum er einum of einföld. Það hefði verið skemmtilegra að sjá persónurnar gefa mynd af sér með athöfnum eða samtölum. Ódýrri aðferð er einnig beitt til að fá áhorfendur til að finna til samúðar með aðalpersónunni en áður en Rama ( Iko Uwais ) leggur af stað í verkefnið klappar hann áhyggjufullur á óléttubumbu eiginkonu sinnar. Söguþráðurinn er að sama skapi fremur formúlukenndur og fátt þar sem ekki hefur sést áður. Slagsmálaatriðin, sem myndin gengur að miklu leyti út á, eru hins vegar mjög fersk og frumleg. Mörg atriðin eru einstaklega vel útfærð og minna helst á dansverk ; slík slagsmálaatriði eru list út af fyrir sig. Leikarar myndarinnar standa sig með prýði og eru mjög sannfærandi, myndatakan er frábær og mörgum aðferðum beitt. Hrá myndatakan fer einkar vel saman við gróf og hrollvekjandi slagsmálaatriðin. Sviðsmyndin er einnig mjög vel útfærð og fer vel saman við myndatökuna. Ofbeldið, sem spilar eins og áður var sagt stórt hlutverk í myndinni, er mjög ítarlegt og safarík framsetningin líkleg til að ganga fram af einhverjum áhorfendum. The Raid : Redemption er enginn viskubrunnur og situr ekkert sérstaklega eftir í huga undirritaðs. Hún heldur þó athyglinni mjög vel meðan á sýningu stendur og afþreyingargildið er mikið. Áhorfendur geta því farið á myndina, fengið útrás fyrir spennuþörfina og haldið síðan hver í sína áttina án þess að teljast mikið breyttir einstaklingar. Davíð Már Stefánsson
|
Leikmenn Arsenal hituðu upp í Black Lives Matter bolum fyrir æfingaleik gegn Brentford í dag, sem er upphitunarleikur fyrir gríðarlega erfiðan úrvalsdeildarleik gegn ríkjandi meisturum Manchester City 17. júní. Arsenal mætir Man City fyrir luktum dyrum og verður áhugavert að sjá hvernig leikmenn eru eftir þriggja mánaða Covid pásu. Leikmenn og starfsmenn Arsenal sýndu baráttu svartra gegn kynþáttafordómum stuðning með því að hita upp í bolunum. Þeir krupu einnig fyrir leik og héldu mínútuþögn til að minnast þeirra fjölmörgu sem hafa verið drepnir vegna húðlitar sins. Arsenal tapaði leiknum gegn Brentford óvænt 3 - 2 eftir að hafa unnið Charlton 6 - 0 á dögunum. Arsenal komst tvisvar yfir í leiknum en Championship-lið Brentford náði að jafna og gera sigurmark.
|
Karl prins dregur í efa að hægt sé að líta á mannkynið sem skynsemisveru þar sem ákvarðanir þess eru næstum því eingöngu drifnar áfram af gróðasjónarmiðum. Okkar maður í Bretlandi segir löngu tímabært að grípa til aðgerða til að draga úr mengun sjávar og að hann muni í framtíðinni leggja sitt af mörkum í baráttunni til að vernda hafið. Karl segir að plastmengun í hafi sé gríðarleg og fagnar aukinni vitund almennings um vandamálið. Hann harmar jafnframt hversu litla athygli hafið og mengun þess hefur fengið og hversu lítið hefur verið gert til að draga úr mengun hafsins undanfarna áratugi. Prinsinn kallar eftir aðgerðum til varnar vistkerfi hafsins. Skeytinga - og ábyrgðarleysi Í ráðstefnu Evrópusambandsins, Our Oceans, sem haldin var á Möltu 5. til 6. október síðastliðinn, lýsti prinsinn vaxandi áhyggjum sínum yfir skeytinga - og ábyrgðarleysi stjórnvalda þegar kemur að ákvarðanatöku sem tengjast umhverfismálum. Hann sagðist reyndar vera farinn að efast um að það væri lengur hægt að líta á manninn sem tegund sem skynsemisveru þar sem ákvarðanir hennar séu nánast eingöngu drifnar áfram út frá gróðasjónarmiðum. Mannkynið varnarlaust gegn náttúruöflunum Karl gagnrýndi Trump Bandaríkjaforseta í ræðu sinni fyrir að neita að skrifa undir Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði að fellibylirnir í Bandaríkjunum undanfarið væru einungis fyrirboði þess sem ætti eftir að koma. „ Maðurinn stendur varnarlaus gagnvart náttúruöflunum hvað þá fjármála - og tryggingarfyrirtæki, auk þess sem ríkjandi og galin hugmyndafræði hvetur til að reyna á þolmörk heimsins hvað varðar eyðileggingu. “ Vistkerfi hafsins viðkvæmt Karl, sem lengi hefur talað fyrir verndun regnskóganna, sagði að verndun hafsins væri honum ekki síður hugleikið en verndun regnskóganna. „ Við ættum að fagna því að almenningur sé farinn að gera sér grein fyrir því að verndun hafsins sé ekki síður mikilvæg en verndun regnskóganna. Ég efast reyndar um að við gerum okkur enn grein fyrir því hversu viðkvæmt vistkerfi hafsins er í raun og veru og við verðum að forðast að líta á hafið eingöngu sem uppsprettu auðs. Milljarðar evra til umhverfismála Á ráðstefnunni var því lýst yfir að Evrópusambandið ætlaði að leggja ríflega 550 milljón evrur, um 68 milljarða íslenskra króna, til verkefna sem eiga að stuðla að verndun hafsins. Þar á meðal eru verkefni sem eiga að draga úr sjóræningjaveiðum, magni plasts í hafinu og gervihnöttum til eftirlits á hafinu.
|
„ Ég ætla að ræða um samband Íslands og Evrópu á seinni hluta 18. aldar. Hvaða samskipti áttu sér stað og hvaða áhrif bárust frá Evrópu til Íslands, “ segir Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði við HÍ, um erindi sem hún heldur á málþingi Félags um 18. aldar fræði í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Tilefnið er að 20 ár eru liðin frá því félagið var stofnað. „ Ísland var vissulega landfræðilega einangrað á 18. öld en evrópsk áhrif bárust þó til Íslands, “ segir Anna og nefnir sem dæmi að Almenna bænaskráin frá 1795 sé greinilega skrifuð undir áhrifum frá orðræðu frönsku byltingarinnar. „ Íslendingar sendu Danakonungi þessa bænaskrá, krafan var að fá frjálsa verslun við Evrópu en hann var nú ekki aldeilis á því og húðskammaði helstu embættismenn þjóðarinnar. “ Anna nefnir líka erlenda vísindaleiðangra sem hér voru á ferð, tvo franska og einn breskan. Einnig danska vísindamenn sem ekki létu sér nægja að skoða landið heldur skrifuðu líka um það. „ Margar ferðalýsingar á vísindalegum grunni komu út og þær voru þýddar á ensku, frönsku, þýsku og hollensku, “ útskýrir hún. Klæðnaður Íslendinga í lok 18. aldar er eitt af því sem Anna minnist á. „ Á myndum sjást íslenskir karlar klæddir eins og Mozart enda ferðuðust þeir utan en mér sýnist þeir ekki hafa keypt nýjustu tísku á konurnar sínar! “ Auk Önnu flytur Guðrún Laufey Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri á Árnastofnun, erindi á málþinginu og talar um söngfróð sálmaskáld. Loks munu Spilmenn Ríkínís flytja íslenska tónlist frá 17. og 18. öld og boðið verður upp á léttar veigar og aðrar veitingar.
|
Við Keflavíkurhöfn er bátur við það að slitna frá bryggju, skv. upplýsingum frá Landhelgisgæslunni og er nú unnið að því að festa hann betur við bryggju. Mikið hvassviðri er á suður - og suðvesturhorni landsins.
|
Forseti vill geta þess um fundarhaldið að að loknum atkvæðagreiðslum um átta fyrstu dagskrármálin verður settur nýr fundur og þá fara fram frekari atkvæðagreiðslur.
|
Þóra Guðjónsdóttir fæddist 4. október 1925. Hún lést 14. júní 2015. Útför Þóru fór fram 29. júní 2015. Ský eilífðardags dregur fyrir sólu um stund. Við andlát Þóru Guðjónsdóttur votta ég innilega börnum hennar, barnabörnum og ástvinum mína dýpstu samúð. Fallin er frá mikil sómakona og sannur gleðigjafi. Hvar sem hún kom og hvar sem hún birtist fylgdi henni ótrúleg lífsgleði og ferskur andblær. Ég átti því láni að fagna að vera samstarfsmaður Þóru um árabil hjá öldrunarþjónustu Reykjavíkurborgar þar sem lífsþróttur hennar, mannkærleikur, félagslyndi, fordómaleysi og virðing birtist okkur samstarfsmönnum hennar á hverjum degi. Við nutum góðrar nærveru hennar og frásagnar og ætíð sá hún góðu hliðarnar á tilverunni. Dag einn sagði hún okkur eftirfarandi sögu : " Í dag birtist hér gamall vinur minn, myndarlegur maður. " En hvað þú lítur vel út, Þóra mín, " sagði hann glaðlega, " þú hefur bara ekkert breyst í tímans rás. " Ég varð að vonum glöð og stolt að heyra hrósið. Svo bætti hann við : " Verst þykir mér þó hvað ég er farinn að sjá illa. " " Svo hló hún innilegum hlátri. En Þóra var ekki einungis góður samstarfsmaður, hún var einnig trúr vinur í gleði og þraut. Vinir hennar áttu margar eftirminnilegar stundir með henni þar sem glaðværðin naut sín. Hún hafði yndi af samveru með fólki og það var auðvelt að ræða við Þóru um allt milli himins og jarðar. Þar var slegið á marga strengi og rætt um trú og tónlist, þjóðmál, stjórnmál og knattspyrnu og hinstu rök tilverunnar. Alltaf var hún jafn glaðvakandi og áhugasöm og í öllum umræðum smitaði jákvætt lífsviðhorf nærstadda. Hún vildi öllum vel. Viðmót hennar varpaði glaðlegu ljósi á lífið. Ský dregur frá sólu á síðkomnu sumri og sunna hellir hlýjum geislum yfir land og haf. Og lífið heldur áfram. Undir þeim geislum þökkum við góðri konu samfylgd og ógleymanlegar minningar. Þórir S. Guðbergsson.
|
Árið 1986 var einkaleyfi RÚV á útvarps - og sjónvarpsrekstri afnumið og árið 1989 var sala bjórs heimiluð í fyrsta sinn frá 1915.
|
Tvær hundasýningar á vegum Hundaræktarfélags Íslands fóru fram nú um helgina, annars vegar sýningin " Reykjavík Winner " og hins vegar hin svokallaða Norðurlandasýning. " Þetta eru langstærstu sýningarnar til þessa en við höfum aldrei sýnt jafn margar tegundir áður, " segir Daníel Örn Hinriksson, formaður HRFÍ, í samtali við Morgunblaðið. Yfir 900 hundar af 100 mismunandi tegundum kepptu í sýningunum tveimur sem vegna fjöldatakmarkana voru haldnar á tveimur mismunandi stöðum, annars vegar á Víðistaðatúni í Hafnarfirði og hins vegar á túni Fáks í Víðidal. Þrátt fyrir metþátttöku og fjöldatakmarkanir gengu sýningarnar " glimrandi vel " að sögn Daníels. Stjarna helgarinnar var afgan-hundur, Dali, en tegundin á rætur sínar að rekja til Afganistan. Af yfir 900 hundum vann Dali titilinn " best in show " eða " bestur á sýningunni " á þessum fyrstu tveimur sýningum HRFÍ á árinu. Berglind Gestsdóttir, eigandi Dali og Valshamarsræktunar, segir sigur helgarinnar gríðarlegan heiður fyrir sig sem ræktanda. " Þetta er staðfesting á því hvað Dali er stórkostlegur fulltrúi tegundarinnar á Íslandi, " segir hún.
|
Antonio Conte hefur komið eins og stormsveipur inn í ensku úrvalsdeildina, en Ítalinn ástríðufulli hefur á skömmum tíma rifið Chelsea-liðið upp í hæstu hæðir. Eftir ellefu sigurleiki í röð í deildinni, sem er nýtt félagsmet, fer Chelsea inn í jólahátíðina með sex stiga forskot í toppsæti deildarinnar og þeir sem sett hafa peninga sína á að Chelsea landi Englandsmeistaratitlinum í vor ættu að vera í góðum málum. Hvers vegna? Jú, í þau fjögur skipti sem þeir bláklæddu hafa verið krýndir meistarar í ensku úrvalsdeildinni hafa þeir trónað á toppnum um jólin. Á sama tíma fyrir ári var allt í kalda koli hjá Chelsea sem ríkjandi meisturum. Liðið var í 16. sæti og José Mourinho var rekinn úr starfi. Hollendingurinn Guus Hiddink stýrði liðinu frá janúar til loka tímabilsins og Chelsea endaði tímabilið í 10. sæti. Það var síðan snemma í apríl sem fregnir bárust af því að Chelsea hefði ráðið Conte til starfa. Conte hóf störf hjá Chelsea eftir Evrópumótið í Frakklandi, en þar kvaddi hann ítalska landsliðið sem hann þjálfaði frá árinu 2014. Sjá umfjöllun um Conte og Chelsea í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.
|
Naustaskóli. Mynd : Hörður Geirsson. Byggingafyrirtækið SS Byggir ehf. átti lægsta tilboð í innanhússfrágang í kennslu - og verkgreinaálmu í 2. áfanga Naustaskóla, samtals um 1.350 m 2. Alls bárust þrjú tilboð í verkið og voru þau opnuð í dag. SS Byggir bauð tæpar 122,3 milljónir króna, eða 85,3% af kostnaðaráætlun. Hyrna ehf. bauð rúmar 124,7 milljónir króna, eða 87% af kostnaðaráætlun og ÍAV bauð rúmar 148 milljónir króna, eða 103,3% af kostnaðaráætlun. Verklok er áætluð 1. ágúst á þessu ári. Kostnaðaráætlun verksins hljóðaði upp á tæpar 143,4 milljónir króna.
|
Björn Einarsson, formaður Víkings, gagnrýnir þá stöðu sem upp er kominn hjá formanni KSÍ, Geir Þorsteinssyni, sem býður sig fram í stjórn Alþjóðaknattspyrnusambandsins undir þeim formerkjum að hann verði áfram formaður KSÍ. Fyrst verði að kjósa formann að sögn Björns. Björn íhugar enn framboð sitt til formanns KSÍ en Guðni Bergsson tilkynnti framboð sitt í dag. „ Ég er að skoða þetta frá öllum hliðum áður en maður tekur ákvörðun eins og Guðni er búinn að gera, “ segir Björn. Ekkert sé ákveðið í því hvenær sú ákvörðun liggi fyrir. Ljóst er að tekist verður um starf formanns þar sem Geir hyggur á endurkjör eftir tíu ár í starfi formanns. Framboð til FIFA Skömmu eftir að Guðni sendi frá sér tilkynningu um framboð sitt til formanns greindi Mbl.is frá því að Geir Þorsteinsson væri í framboði til stjórnar FIFAog nyti stuðnings Norðurlandaþjóðanna. Kosið verður þann 5. apríl. Óljóst er hvort Geir verði formaður 5. apríl enda fara formannskosningar fram hjá KSÍ þann 11. febrúar. Geir útskýrir málin hvað þetta varðar í viðtali við Mbl.is en framboðsfrestur til stjórnarsetu hjá FIFA rann út 5. desember. „ … forsendan fyrir því að taka sæti í stjórn FIFA er að ég haldi áfram mínu starfi sem formaður Knattspyrnusambandsins. Erlendir miðlar höfðu greint frá framboði Geirsí síðustu viku. Íslenskir miðlar höfðu hins vegar ekki greint frá því og var framboðið eftir því sem Vísir kemst næst á fárra vitorði í knattspyrnuhreyfingunni. Um svipað leyti og Mbl fjallaði um málið, þ.e. skömmu eftir tilkynningu um framboð Guðna, birtist frétt á vefsíðu KSÍ í dagum FIFA-framboð Geirs. Finnst Geir ekki geta stýrt málum svo Björn Einarsson segir þetta tvennt ekki geta haldist í hendur. „ Við látum varla KSÍ stjórna því hverjir fara inn í FIFA. Fyrst byrjum við á að kjósa formann KSÍ og svo sjáum við hvað kemur í kjölfarið, “ segir Björn. „ Það sem skiptir mestu eru íslensku knattspyrnumálin. Svo sjáum við hvað kemur í kjölfarið á því. Mér finnst Geir ekki geta tengt þetta saman. “ Athygli hefur vakið að Björn ætlar að sinna starfinu launalaust á meðan fyrir liggur að Geir og Guðni munu þiggja laun fyrir. Launin eru um ein og hálf milljón króna auk fríðinda og töluverðra dagpeninga vegna ferðalaga. Björn segir að hann sé því raunverulegur valkostur við Geir og Guðna, ákveði hann að fara fram. Launalausi formaðurinn „ Málið er að starfandi stjórnarformennska tíðkast ekki í íslensku atvinnulífi í dag, “ segir Björn sem er forstjóri TVG Ziemsen. KSÍ sé glæsilegt sérsamband og ítrekar fyrri orð sín um að styrkja þurfi ímynd sambandsins. Samkvæmt heimildum Vísis eru það helst félög í efstu deild sem kalla á breytingar í forystu KSÍ. Félögin eru undir einum hatti hjá ÍTF ( Íslenskum Toppfótbolta ) en hvort Geir eða Guðni hafi dyggari stuðning þaðan liggur ekki fyrir. Erfitt hafi verið að mynda sér fullkomna skoðun á frambjóðanda þar til fyrirliggi hvort þeir færu í framboð eða ekki. Björn segist finna fyrir jákvæðum straumum og vangaveltur aukist eftir tíðindi dagsins. „ Það er ljóst að það er jarðvegur fyrir breytingar. Það er það sem ég finn án þess að hengja það á nöfn. “
|
Iðnaðarmenn hefja undirbúning verkfallsaðgerða í næstu viku fari ekki að sjást til lands í viðræðum við Samtök atvinnulífsins í þessari viku, að sögn talsmanns iðnaðarmanna. Sennilegast verði horft til takmarkaðra aðgerða líkt og hjá verkalýðsfélögum í nýafstöðum kjaradeilum. Félög iðnaðarmanna eiga fund með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara á morgun en lítið hefur miðað í viðræðum þeirra að undanförnu. Kristján Þórður Snæbjörnsson formaður Rafiðnaðarsambandsins og talsmaður iðnaðarmannafélaganna segir þessa viku verða notaða til að sjá til lands í viðræðunum enda séu þær komnar í tímapressu. „ Og uppleggið verður að reyna að sjá til lands í okkar samningum og ef það fer ekki að skýrast í þessari viku teljum við okkur knúna til að taka önnur skref í þessum viðræðum. “ Og önnur skref eru þá aðgerðir? „ Já það er þá það eina sem við getum gert að grípa til aðgerða ef við náum ekki að semja, “ segir Kristján Þórður. Iðnaðarmenn séu tilbúnir til að funda alla daga sem eftir er vikunnar og láta reyna til þrautar á samninga. Staðan hafi á vissan hátt skýrst eftir að samningar tókust við VR og félög innan Starfsgreinasambandsins fyrir páska. „ En pressan auðvitað eykst á okkur að komast til botns í okkar málum líka. Við auðvitað höfum það verkefni að reyna að klára okkar samninga. Það er verkefnið okkar, “ segir Kristján Þór. Launaliðurinn geti reynst erfiður en menn þurfi að sjá hvernig hann geti litið út ásamt lágmarkstöxtum. Í nýgerðum samningum var samið um mismiklar krónutöluhækkanir launa eftir því hversu há laun voru fyrir. „ Okkar áherslur á undanförnum árum hafa verið að notast við prósentuhækkanir. En við höfum einnig notast við krónutöluhækkanir á síðustu árum. Þannig að við erum opnir fyrir ýmsum leiðum, “ segir Kristján Þór. Komi til aðgerða verði líklega afmarkaðir hópar teknir fyrir líkt og í aðgerðum verkalýðsfélaganna í nýafstöðum kjaradeilum, en það eigi þó eftir að útfæra aðgerðir. En að líður að ögurstund í lok þessarar viku? „ Já, það er orðin tímapressa á okkur að klára þetta. Og sá tímapunktur er núna, “ segir Kristján Þórður Snæbjörnsson.
|
Sama ár og Edinborgarhátíðin var haldin í fyrsta skipti var Edinburgh Festival Fringe stofnuð með því að átta leikhópar mættu óboðnir á hátíðina.
|
HÚSNÆÐISVANDINN í Reykjavík var talsvert til umræðu í umræðuþætti með forystumönnum allra framboða fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagði m.a. í umræðunum að Félagsbústaðir hefðu aukið skuldir sínar vegna þess að fyrirtækið keypti 100 íbúðir á ári til að reyna að ráða við húsnæðisvandann. " Því miður hefur það ekki tekizt, vegna þess að greinilegt er í þessu samfélagi að eignalítið fólk, með lágar tekjur, hefur setið eftir í þessu góðæri og biðlistar eftir félagslegu húsnæði aukast, " sagði Ingibjörg Sólrún. Hún sagði að Félagsbústaðir myndu áfram skuldsetja sig á meðan þetta ástand ríkti. Bágindi fólks sem vantar húsnæði Björn Bjarnason, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, sagði að það sem hefði komið sér mest á óvart í kosningabaráttunni væri að heyra um þau bágindi, sem væru hjá mörgu fólki sem þyrfti á félagslegu húsnæði að halda, sérstaklega einstæðum mæðrum með börn. " Þær koma og leggja fram óskir um að komast inn í þetta húsnæði og þurfa að bíða í fimm ár. Það er sagt við þær : Það verður engin úrlausn í ykkar málum fyrr en eftir fimm ár. Þessi biðlisti hefur lengzt úr 200 manns upp í 600 manns. Það eru núna 300 manns sem menn tala um að séu í raun og veru heimilislausir hér. Þetta hefur allt gerzt á undanförnum árum. " Ingibjörg Sólrún sagði að árin 1991 og 1992 hefðu verið 590 manns á þessum biðlistum, en þessi ár hefðu sjálfstæðismenn samtals keypt 24 íbúðir. Markmið R-listans um að leysa vandann með íbúðakaupum hefði m.a. ekki gengið eftir vegna þess að ríkið hefði lokað félagslega íbúðakerfinu. " Það eru 120 - 130 fjölskyldur, sem eiga ekki í önnur hús að venda en til Reykjavíkurborgar í félagslegt leiguhúsnæði. " Ingibjörg Sólrún nefndi að nú væri komin áætlun frá félagsmálaráðherra um byggingu 600 almennra leiguíbúða og borgin hefði úthlutað 100 lóðum til þeirra. Björn Bjarnason gagnrýndi hins vegar að R-listinn hefði fylgt skömmtunarstefnu í lóðamálum, sem hefði leitt af sér að íbúða - og lóðaverð hefði hækkað og bæði verktakar og húsbyggjendur væru í miklum vandræðum, " í stað þess að opna þetta kerfi og gefa ungu fólki tækifæri til að fá lóðir og byggja sjálft ef það kýs, þurfa ekki að fara í gegnum verktakana og allt þetta uppboðskerfi. " Björn gagnrýndi jafnframt að R-listinn hefði horfið frá samstarfi við einkaaðila um framleigu á leiguíbúðum. Ingibjörg Sólrún svaraði því til að þvert á móti vildi Reykjavíkurlistinn að þróaður yrði almennur leigumarkaður, þannig að það væri ekki bara borgin og samtök námsmanna og öryrkja sem rækju leiguíbúðir.
|
SVÍAR lögðu að venju mikið upp úr því að mótshald allt tækist sem best á heimsbikarkeppninni. Þeir burðu liðunum sjö til leiks, greiddu allt uppihald en gera samt sem áður ráð fyrir lítilsháttar hagnaði. Svo sjóaðir eru þeir orðnir í mótshaldinu að Peo Söderblo, forseti sænska handknattleikssambandsins, lagði til í blaði mótsins að það verði haldið annað hvert ár í stað fjögurra eins og verið hefur. Búist er við því að ákvörðun þess efnis verði tilkynnt formlega á næstunni.
|
Blue Lagoon open, eitt glæsilegasta kvennamót ársins, verður haldið á Húsatóftavelli í Grindvík laugardaginn 22. september. Bláa lónið er styrktaraðili allra golfklúbbanna á Suðurnesjum og leggur til glæsilega vinninga til mótsins. Á meðal vinninga eru Blue Lagoon snyrtivörur, dekur og matur. Nú þegar eru hátt í 70 konur skráðar í mótið. Halldór Einir Smárason, varaformaður Golfklúbbs Grindavíkur, sagði að gott samstarf við öfluga styrktaraðila eins og Bláa lónið væri ómetanlegt fyrir starfsemi golfklúbbanna á svæðinu. „ Samstarfið gerir okkur m.a. kleift að halda góð mót sem styðja við starfsemi klúbbsins, “ segir Halldór. Bláa lónið er styrktaraðili allra golfklúbbanna á Suðurnesjum Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa lónsins, segir að samstarfið við klúbbana hér á Suðurnesjum hafi verið afar ánægjulegt. „ Okkar framlag felst m.a. í því að leggja til vinninga fyrir hin ýmsu mót sem klúbbarnir halda. Öflugt starf golfklúbbanna er mikilvægt fyrir samfélagið í heild sinni og þá er barna - og unglingastarfið ómetanlegt. “
|
Heimstónlistarhljómsveitin Skuggamyndir frá Býsans fagnar útgáfu á nýjum geisladiski, Night without moon, með tónleikahaldi víða um land á næstu dögum en á diskinum er safn þjóðlaga frá Búlgaríu, Tyrklandi, Makedóníu og Grikklandi. Í kvöld leikur hljómsveitin á Græna hattinum á Akureyri, 4. júlí á Hótel Reynihlíð við Mývatn, 5. júlí á lokaballi Þjóðlagahátíðar á Siglufirði og 6. júlí verða útgáfutónleikar í Björtuloftum í Hörpu. Á tónleikaröðinni koma fram ýmsir erlendir gestir ; sænski túbuleikarinn Jonatan Ahlbom, Borislav Zgurovski, harmóníkuleikari frá Búlgaríu og slagverksleikarinn Claudio Spieler frá Austurríki. Í hljómsveitinni eru Haukur Gröndal sem leikur á klarínett og saxófón, Ásgeir Ásgeirsson á bouzouki, tamboura og saz ; Róbert Þorhallsson á rafmagnsbassa og Erik Qvick á slagverk.
|
Olof Rudbeck eða Olof Rudbeck eldri, ( 13. september 1630 – 17. september 1702 ), var sænskur vísindamaður sem var prófessor í Uppsalaháskóla og fékkst við margar fræðigreinar, læknisfræði, grasafræði, sagnfræði o.fl.
|
Hamar 2 - 4 Hvöt 0 - 1 Mirnes Smajlovic 0 - 2 Bjarni Pálmason 1 - 2 Stefán Daníel Jónsson 1 - 3 Mirnes Smajlovic 2 - 3 Milan Djurovic 2 - 4 Mirnes Smajlovic Hvöt sigraði Hamar 4 - 2 í annarri deild karla í kvöld en þessum leik var frestað í vor vegna jarðskjálftans á Suðurlandi. Mirnes Smajlovic fór mikinn hjá Hvöt í kvöld og hann skoraði fyrsta mark leiksins með skalla eftir hornspyrnu. Bjarni Pálmason bætti öðru marki við með fallegu skoti af 30 metra færi sem fór efst upp í markhornið. Hamarsmenn lögðu ekki árar í bát og Stefán Daníel Jónsson minnkaði muninn með skoti í fjærhornið. Mirnes kom Hvöt í 3 - 1 úr vítaspyrnu sem góður dómari leiksins dæmdi áður en Milan Djurovic minnkaði aftur muninn fyrir Hamar en hann fékk góðan tíma til að athafna sig og skora framhjá Nezir Ohran í markinu. Mirnes innsiglaði hins vegar þrennu sína og þegar hann fékk sendingu frá Ágústi Ágústssyni, sendi boltann framhjá Robert Mitrovic í markinu og ýtti boltanum síðan yfir marklínuna. 4 - 2 sigur Hvatar staðreynd en liðið er nú komið upp í áttunda sætið með níu stig eftir tvo sigurleiki í röð. Hamarsmenn eru hins vegar með sex stig í næstneðsta sæti.
|
Í frásögn sinni af atburðunum tengir Þorgeir morðin 1828 og aftökuna 1830 við peningarán í Múla 1824.
|
LISTAMENNIRNIR Egill Sæbjörnsson og Magnús Jensson kynna í Norræna húsinu í kvöld, miðvikudagskvöld, klukkan 21, afrakstur verksins Stundaskrá sem var þeirra framlag á listþinginu list & ást & list þar í húsinu alla liðna helgi. Er kynning þeirra lokahnykkurinn á dagskránni. Stundaskráin er búin til utan um uppáhaldsgreinar þeirra, þar á meðal hljóðfærasmíði, kyrrðarstund, kökugerð, matargerð, teiknó, tónlist, tungumál, útivist og vettvangsferðir. Stundaskráin hefur hangið uppi í Norræna húsinu og hafa félagarnir farið nákvæmlega eftir henni.
|
Mál Más Guðmundssonar seðlabankastjóra verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Már höfðaði mál gegn bankanum vegna ágreinings um launakjör hans. Hann telur að þau séu um 300 þúsund krónum lægri en um var samið. Ástæðan er sú að kjararáð breytti ákvörðunum um laun seðlabankastjóra og annarra eftir að Már hafði samið um laun sín.
|
Fimmtu umferð Landsbankadeildarinnar lýkur með þremur leikjum í kvöld og mun Fótbolti.net fylgjast með gangi mála í beinni textalýsingu. Leikir kvöldsins : Grindavík 0 - 3 FH Leik lokið 0 - 1 Atli Viðar Björnsson ( 20 ) 0 - 2 Atli Viðar Björnsson ( 34 ) 0 - 3 Dennis Siim ( 47 ) KR 2 - 0 FRAM Leik Lokið 1 - 0 Björgólfur Takefusa ( 24 ) 2 - 0 Guðjón Baldvinsson ( 46 ) HK 4 - 2 Valur 20:00 Leik lokið 0 - 1 Birkir Már Sævarsson ( 20 ) 1 - 1 Finnbogi Llorenz ( 70 ) 2 - 1 Iddi Alkhag ( 80 ) 2 - 2 Helgi Sigurðsson ( 82 ) 3 - 2 Iddi Alkhag ( 85 ) 4 - 2 Iddi Alkhag ( 90 ) 21:52 : Leiknum er lokið á Kópavogsvelli með ótrúlegum 4 - 2 sigri HK á Íslandsmeisturum Vals. Öllum þremur leikjum kvöldsins er því lokið með tveimur heimasigrum og einum útisigri. 21:50 : MARK !!! Nú er það ljóst að HK-ingar hafa tryggt sér sín fyrstu stig í sumar með góðum sigri á Val eftir að Iddi Alkhag fullkomnaði þrennuna. Aaron Palomares gerði frábærlega á vinstri kannti lék framhjá varnarmönnum Vals sendi boltann fyrir á Alkhag sem setti boltann í netið. 21:48 : Valsmenn voru að fá dauðafæri. Bjarni Ólafur Eiríksson var einn fyrir framan Gunnleif í markinu, sem varði skot hans, Albert Ingason fékk boltann aðeins meter frá markinu og mokaði boltanum yfir í dauðafæri. 21:43 : Pálmi Rafn Pálmason fékk fínt tækifæri til þess að jafna metin en skot hans fór yfir. Það má svo einnig geta þess að Baldur Aðalsteinsson er farinn aftur af leikvelli eftir að hafa komið inná fyrir tæpum 40 mínútum. 21:42 : MARK !!! Þetta er ótrúlegt. Iddi Alhag hefur komið HK aftur yfir. Aaron Palomares fékk boltann á vinstri kanti frá Damir Muminovic, hann sendi boltann á Idda Alkhag sem snéri af sér varnarmann og skoraði glæsilega. Hvað er í gangi hérna í Kópavogi. 21:39 : Mark !!! Það tók Helga Sigurðsson aðeins tvær mínútur að jafna metin fyrir Valsmenn örugglega úr vítaspyrnu eftir að boltinn hafði farið í hendina á Hólmari Erni Eyjólfssyni innan vítateigs. 21:37 : Mark !!! Þvílík endurkoma í Kópavogi. HK eru komnir yfir. Aaron Palomares vann boltann á hægri kanti hann sendi boltann fyrir á Iddi Alkhag sem skallaði boltann yfir Kjartan Sturluson sem var kominn langt útúr markinu og Iddi potaði boltanum yfir línuna. 21:28 : MARK !!! Heimamenn hafa jafnað gegn Val. Eftir hornspyrnu frá Goran Brajkovic skallaði Damir Muminovic boltanum í átt að marki Kjartans Sturlusonar en það var hins vegar Finnbogi Llorenz sem skallaði knöttinn yfir marklínuna. 1 - 1 í Kópavogi. 21:26 : HK-ingar geta líklega þakkað Gunnleifi Gunnleifssyni fyrir að vera aðeins einu marki undir og í þetta skiptið varði þessi fyrrum leikmaður KR og Keflavík glæsilega eftir aukaspyrnu frá Rene Carlsen. 21:16 Núna þegar fimmtán mínútur eru liðnar af seinni hálfleik í Kópavogi eru heimamenn í HK sterkari aðilinn en þeir eiga þó í erfiðleikum með að skapa sér almennileg marktækifæri. Þá hafa bæði lið gert skiptingu. Hörður Magnússon kom inná fyrir þá hvítklæddu í leikhléi í stað nafna síns, Harðars Árnarsonar. Þá kom Baldur Aðalsteinsson einnig inná fyrir Valsmenn þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, hans fyrsti leikur á þessu tímabili. 21:08 Leik lokið! Leik KR og Fram er einnig lokið þar sem Björgólfur Takefusa og Guðjón Baldvinsson tryggðu Vesturbæingum 2 - 0 sigur. Þeir skilja á þá Grindvíkinga eina eftir með HK á botninum en það er þó ekki langt í Skagamenn og Þrótt frá Reykjavík. 21:05 Leik lokið! Leik Grindvíkinga og FH-inga er lokið og lokatölur 0 - 3 þar sem Atli Viðar Björnsson skoraði tvö mörk áður en Dennis Siim bætti við þriðja markinu. FH eru nú komnir upp fyrir Keflavík í toppsætið með þrettán stig og þar líður þeim best. 21:03 : Grindvíkingar voru nálægt því að minnka muninn gegn FH þegar Andri Steinn Birgisson átti skot sem small í stönginni. Staðan hins vegar ennþá 0 - 3 og allt stefnir í sannfærandi sigur bikarmeistaranna. 20:56 : Það er lítið í gangi í Grindavík fyrir utan nokkrar skiptingar. Matthías Guðmundsson og Jónas Grani Garðarsson eru komnir inn hjá gestunum í stað Atla Viðars Björnssonar og Tryggva Guðmundssonar. Hjá heimamönnum er Sveinn Þór Steingrímsson kominn inná í stað fyrirliðans Orra Frey Hjaltalín. 20:50 : Grindvíkingar hafa einnig gert sína fyrstu skiptingu en það var afmælisbarnið Emil Daði Símonarson sem kom inn fyrir Alexander Veigar Þórarinsson. Emil Daði er tvítugur í dag. 20:47 : Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks misnotaði Pálmi Rafn tvö góð marktækifæri í viðbót. Fyrst komst hann einn inn fyrir vörn HK en skot hans fór rétt framhjá. Stuttu síðar átti Pálmi Rafn skalla eftir hornspyrnu en á einhvern ótrúlegan hátt tókst Gunnleifi í markinu að verja. 20:46 : FH-ingar þurfa líklega ekki að skora mikið fleiri mörk í kvöld. Þrátt fyrir það er Arnar Gunnlaugsson kominn inná í stað Atla Guðnasonar. 20:42 : Reynir Leósson, leikmaður Fram, er farinn af meiddur af leikvelli og hans stað tók annar varnarmaður, Óðinn Árnason. 20:37 : Stuðningsmenn KR-inga voru langt frá því að vera sáttir með dómarann Eyjólf Kristinsson núna rétt í þessu. Orðaskipti Paul McShane og Jónasar Guðna Sævarsson endaði með því að sá fyrrnefndi hrinti fyrirliða KR-inga. Eyjólfur gaf Paul þó aðeins gula spjaldið. 20:33 : Það er nóg um að vera í Kópavogi. Mitja Brulc skaut knettinum framhjá eftir undirbúning Iddi Alkhag og þá fór aukaspyrna Bjarna Ólafs Eiríkssonar yfir markið af stórhættulegi færi. 20:18 : MARK !!! Það er nóg að gera í leikjum kvöldsins. Dennis Siim hefur komið FH í 3 - 0 en hann skoraði skoti utan í teig eftir að þeir gulklæddu höfðu reynt að hreinsa frá. 20:17 : MARK !!! Þá eru Valsmenn komnir yfir á Kópavogsvelli. Hafþór Ægir Vilhjálmsson átti sendingu frá vinstri, beint á hausinn á Pálmi Rafn Pálmason skallar sem Gunnleifur ver Birkir Már Sævarsson potar boltanum yfir línuna meðan markvörðurinn Gunnleifur lá eftir. 20:16 : MARK !! Seinni hálfleikur hófst með látum þar sem Guðjón Baldvinsson sem kom knettinum í netið eftir að Hannes hafði varið skot Gunnars Arnars Jónssonar. 20:15 : Áfram halda Íslandsmeistaranir. Landsliðsmaðurinn Pálmi Rafn Pálmason var í dauðafæri en hitti ekki boltann og HK-ingar komust fyrir. Valsmenn eru líklegri þessa stundina. 20:11 Valsmenn hafa eining fengið sitt fyrsta marktækifæri. Það var hins vegar Gunnleifur Gunnleifsson sem varði skalla Helga Sigurðssonar meistaralega. 20:06 : Það voru HK-ingar sem áttu fyrstu hættulegu marktilraunina á Kópavogsvelli í kvöld þar sem Kjartan Sturluson varði hörkuskot Finns Ólafssonar af 25 metra færi, þó nokkuð örugglega. 20:04 Það er kominn hálfleikur á KR-velli og Grindavíkurvelli. Þá er einnig búið að flauta á leik HK og Vals. 20:02 Þegar aðeins viðbótartími var eftir af fyrri hálfleik skipti Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindavíkur, Páli Guðmundssyni inná í stað Jóhanns Helgasonar, líklega vegna meiðsla. 19:51 : MARK !!! FH eru komnir 2 - 0 yfir gegn Grindavík þegar tíu mínútur eru til leikhlés og aftur var það Atli Viðar Björnsson sem setti knöttinn framhjá Zankarlo Simunic í marki heimamanna, núna eftir sendingu frá Atla Guðnasyni frá hægri kanti. 19:44 : MARK !!! KR er komið yfir á heimavelli gegn Fram. Óskar Örn Hauksson tók hornspyrnu og eftir vandræðagang í vítateig gestanna skallaði Daði Guðmundsson, leikmaður Fram, knöttinn til Björgólfs Takefusa sem setti hann í netið. 19:40 : Byrjunarliðin úr leik HK og Vals, sem hefst eftir tæpar tuttugu mínútur, eru komin í hús. HK ( 4-5-1 ) : Gunnleifur Gunnleifsson - Stefán Jóhann Eggertsson, Finnbogi Llorenz, Hólmar Örn Eyjólfsson, Hörður Árnason - Aaron Palomares, Finnur Ólafsson, Damir Muminovic, Goran Brajkovic, Mitja Brulc - Iddi Alkhag Varamenn : Ögmundur Ólafsson, Rúnar Már S. Sigurjónsson, Atli Valsson, Hermann Geir Þórsson, Hörður Magnússon, Eyþór Helgi Birgisson, Calum Þór Bett. Valur ( 4-4-2 ) : Kjartan Sturluson - Birkir Már Sævarsson, Atli Sveinn Þórarinsson, Rene Carlsen, Gunnar Einarsson - Rasmus Hansen, Sigurbjörn Hreiðarsson, Pálmi Rafn Pálmason, Bjarni Ólafur Eiríksson - Hafþór Ægir Vilhjálmsson Helgi Sigurðsson Varamenn : Einar Marteinsson, Baldur Þórólfsson, Baldur Ingimar Aðalsteinsson, Guðmundur Steinn Hafsteinsson, Geir Brynjólfsson, Albert Brynjar Ingason, Ágúst Bjarni Garðarsson. 19:37 : MARK !!! Fyrsta og án efa ekki síðasta mark kvöldsins hefur litið dagsins ljós í Grindavík. Bakvörðurinn Guðmundur Sævarsson átti stungusendingu inn á Atla Viðar Björnsson sem kom FH-ingum í 0 - 1. 19:32 : Auk þess sem KR-ingar hafa fengið hættulegasta marktækifærið á KR-velli í vköld hafa þeir einnig fengið að líta tvö gul spjöld. Þar voru að verki fyrrum landsliðsmaðurinn Pétur Marteinsson og hinn ungi Skúli Jón Friðgeirsson. 19:29 Gunnar Örn Jónsson fékk fyrsta hættulega marktækifærið á KR-velli. Gunnar var kominn einn inn fyrir gegn markverðinum Hannes Þór Halldórsson en færið var samt sem áður of þröngt og Hannes sá við honum. 19:17 Báðir fyrri leikir kvöldsins eru farnir af stað. 19:13 Byrjunarliðin eru einnig komin í leik Grindavíkur og FH. Betra er seint en aldrei. Grindavík : Zankarlo Simunic, Scott Mckenna Ramsay, Marinko Skaricic, Andri Steinn Birgisson, Jóhann Helgason, Tomasz Stolpa, Eysteinn Húni Hauksson Kjerúlf, Orri Freyr Hjaltalín ( F ), Alexander Veigar Þórarinsson, Michael J Jónsson, Jósef Kristinn Jósefsson. FH : Daði Lárusson ( M ) ( F ), Dennis Michael Siim, Tommy Fredsgaard Nielsen, Freyr Bjarnason, Davíð Þór Viðarsson, Tryggvi Guðmundsson, Matthías Vilhjálmsson, Atli Guðnason, Guðmundur Sævarsson, Atli Viðar Björnsson, Hjörtur Logi Valgarðsson. 19:03 Byrjunarliðin eru komin á KR-velli þar sem helst ber að nefna að markmaðurinn Stefán Logi Magnússon er kominn aftur inn í byrjunarlið heimamanna. Hér fyrir neðan eru svo byrjunarliðin og varamannabekkirnir í heild sinni. KR : Stefán Logi Magnússon ( M ), Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Pétur Hafliði Marteinsson, Jónas Guðni Sævarsson, Guðjón Baldvinsson, Óskar Örn Hauksson, Björgólfur Takefusa, Viktor Bjarki Arnarsson, Skúli Jón Friðgeirsson, Gunnar Örn Jónsson, Guðmundur Reynir Gunnarsson. Varamenn : Kristján Finnbogason, Kristinn Jóhannes Magnússon, Atli Jóhannsson, Grétar Ólafur Hjartarson, Ingimundur Níels Óskarsson, Guðmundur Pétursson, Eggert Rafn Einarsson. Fram : Hannes Þór Haldórsson ( M ), Ingvar Þór Ólason, Paul McShane, Auðun Helgason, Reynir Leósson, Daði Guðmundsson, Heiðar Geir Júlíusson, Samuel Lee Tillen, Hjálmar Þórarinsson, Halldór Hermann Jónsson, Ívar Björnsson. Varamenn : Ögmundur Kristinsson ( M ), Óðinn Árnason, Grímur Björn Grímsson, Joseph Tillen, Guðmundur Magnússon, Jón Guðni Fjóluson, Jón Orri Ólafsson. 18:42 Rúmur hálftími er í að fyrstu tveir leikir kvöldsins verði flautaðir af stað. Á KR-velli er það Eyjólfur Kristinsson sem mun sjá um að gera það, í Grindavík verður það Magnús Þórisson og 45 mínútum síðar verður Jóhannes Valgeirsson með flautuna í leik HK og Vals. 18:10 Komiði sæl og blessuð. Fimmtu umferð Landsbankadeildarinnar lýkur í kvöld með þremur leikjum þar sem Heimir Guðjónsson og hans menn eiga möguleika á að koma sér upp fyrir Keflavík og í toppsætið með útisigri á Grindavík. Í öðrum leikjum kvöldsins tekur KR á móti Fram í Frostaskjóli og HK tekur á móti Íslandsmeisturum Vals í Kópavogi. HK hefur ekki enn tekið stig af andstæðingum sínum á þessu tímabili og er ljóst að Valsmenn munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að það gerist í dag.
|
Sex leikir fóru fram í efstu deild Ítalíu í dag. Juventus var meðal liðanna sem spiluðu í dag en liðið keppti við Sampdoria og sigraði leikinn 3 - 0. Með sigrinum varð Juventus ítalskur deildarmeistari. Juventus náði með sigrinum að tryggja sér sinn 36. deildartitil en liðið hefur nú unnið efstu deild Ítalíu, níu sinnum í röð. Cristiano Ronaldo, sem að mati margra er einn besti leikmaður heims, kom til Juventus í fyrra eftir dvöl sína hjá Real Madrid. Ronaldo hefur því unnið ítölsku deildina á báðum leiktíðum sínum þar. Þá hefur Ronaldo nú unnið 7 deildartitla í þremur löndum, Ítalíu, Spáni og á Englandi. Úrslitin úr öllum leikjum kvöldsins í ítölsku deildinni má sjá hér fyrir neðan : Juventus 2 - 0 Sampdoria 1 - 0 Cristiano Ronaldo 2 - 0 Federico Bernardeschi Bologna 3 - 2 Lecce 1 - 0 Rodrigo Palacio 2 - 0 Roberto Soriano 2 - 1 Marco Mancosu 2 - 2 Filippo Falco 3 - 2 Musa Barrow Roma 2 - 1 Fiorentina 1 - 0 Jordan Veretout ( víti ) 1 - 1 Nikola Milenković 2 - 1 Jordan Veretout ( víti ) Hellas Verona 1 - 5 Lazio 1 - 0 Sofyan Amrabat ( víti ) 1 - 1 Ciro Immobile ( víti ) 1 - 2 Sergej Milinković-Savić 1 - 3 Joaquín Correa 1 - 4 Ciro Immobile 1 - 5 Ciro Immobile ( víti ) SPAL 1 - 1 Torino 0 - 1 Simone Verdi 1 - 1 Marco DAlessandro Cagliari 0 – 1 Udinese 0 - 1 Stefano Okaka
|
Brynjólfur Andersen Willumsson var að vonum ósáttur með tap undir 21 árs landsliðsins í lokaleik liðsins á Evrópumótinu í Ungverjalandi. Hann segir þó að liðið hafi sýnt góða spilamennsku á köflum og segir að liðið hafi verið óheppið að ná ekki að nýta þau fáu tækifæri sem það fékk í dag. „ Við náðum fínum spilköflum inn á milli og vorum óheppnir að fá á okkur fyrsta markið í fyrri hálfleik. Við héldum áfram að spila allan tímann og héldum skipulagi, “ sagði Brynjólfur Andersen sem spilaði sem fremsti maður liðsins ásamt Valdimari Þór Ingimundarsyni en þeir fengu verðugt verkefni að kljást við öftustu menn Frakka í leiknum. „ Við Valdi vorum þarna fremstir að kljást við tvo turna og fengum alveg okkar tækifæri en náðum ekki að klára þau í dag. “ Brynjólfur samdi nýverið við Kristiansund í Noregi og heldur þangað eftir verkefnið. Nánar er rætt við Brynjólf í spilaranum hér fyrir ofan.
|
Töluverð skjálftavirkni hefur verið norður af Siglufirði í gærkvöldi og í nótt. Tveir skjálftar upp á tæplega 2,5 stig urðu í nótt en aðrir hafa verið vægari. Fyrir helgi var útlit fyrir að hrinan þarna væri gengin yfir en svo virðist ekki vera.
|
End of preview. Expand
in Data Studio
README.md exists but content is empty.
- Downloads last month
- 3